1142 - Alþingi

Nú er í mikilli tísku hjá bloggurum að tína til ýmis rök fyrir því að rétt sé eða vitlaust að kæra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi. Ég ætla að leyfa mér þann munað að taka ekki afstöðu í þessu máli. Finnst mér ekki bera nein skylda til þess. Vorkenni þessu fólki ekki rassgat að þurfa að standa fyrir máli sínu. Alþingi hefur ekki margt þarfara að gera en rífast um þetta mál. 

Já, ég held bara að mig langi ekki neitt til að verða Alþingismaður. Þeim er kennt um allt mögulegt og allir þykjast betri en þeir. Samt held ég að þetta sé ágætisfólk. Mér virðist að tvennt sem engin áhrif hefur á hversu góðir þingmenn þetta fólk er sé það sem mestu ræður um að það kemst í framboð. Það er að það sé duglegt að koma sér áfram í sínum flokki (með ýmsum ráðum) eða sæmilega gott í að koma fyrir sig orði í ræðustól. Það gerir t.d. Birgitta Jónsdóttir þó ekki. Hún les ekki einu sinni bærilega skrifaðar ræður. Ég dáðist á sínum tíma alltaf að Steingrími Hermannssyni fyrir hvað hann átti auðvelt með að halda góðar og skipulegar ræður blaðalaust.

Merkilegt með þetta líf. Alltaf skulu vera einhverjir aðrir tímar sem eru miklu verri en manns eigin (og jafnvel betri líka). Maður ræður engu um það hvaða tíma manni er úthlutað. Þó eru allir forvitnir um framtíðina og vilja sem mest um hana vita. Svo þegar þessari jarðvist lýkur þá fær maður kannski engar fréttir um framtíðina. Það er verst. Skítt með það þó maður geti lítið sem ekkert gert sjálfur.

Atli frændi minn Harðarson skrifar stöku sinnum í blöð og gerir það t.d. á laugardaginn var en þá birtist talsverður langhundur eftir hann í Morgunblaðinu um inngöngu Íslands í ESB. Þar segir meðal annars:

„En þótt þetta liggi fyrir heldur umræðan hér áfram að vera ýkjukennd og einkennast af fullyrðingum um að efnahagsleg áhrif inngöngu séu mjög mikil og öll á einn veg."

Þetta held ég að sé ekki rétt. Andstæðingum aðildar kann að finnast þetta en mér finnst sanni nær að önnur rök en efnahagsleg ráði mestu um þetta mál. Efnahagsleg rök má túlka á ýmsa vegu og sjaldan eru áhrifin jafn langvarandi og önnur. Það sem mestu máli skiptir varðandi inngöngu í ESB er líkleg þróun mála í samskiptum þjóða næstu áratugina eða jafnvel lengur.

IMG 3040Jú, jú. Það er lítið, skrýtið og skítugt en það stendur í miðbæ Reykjavíkur.


Bloggfærslur 17. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband