1140 - Ammæli

Mér finnst ég ekki þurfa að taka þátt í þeim pólitíska hráskinnaleik sem nú er stundaður. Þingmenn segja unnvörpum að nú þurfi að setja þjóðarheill ofar flokkshagsmunum en meina lítið með því. Aðallega að nú eigi allir að hugsa eins og þeir. Í stuttu máli sagt: Flokkshagsmunir eru okkar æðsta boðorð. Flokkurinn (með stóru effi) kom okkur í þessa valdaaðstöðu og ef við glötum henni er Flokknum tortíming vís. Það er óþarfi að reyna að leyna þessu. Þetta vita allir.

Átti afmæli í gær og þó það væri ekkert merkisafmæli fékk ég fullt af kveðjum á Fésbókinni og meira að segja eina afmælisgjöf.

Árið 2009 var metár í fæðingum hér á Íslandi. Þá fæddust 5027 börn og þar af 2466 stúlkur. Ein þeirra var afa- og ömmustelpan Tinna. Hún verður eins árs í næsta mánuði og er efnileg mjög. Löngu farin að ganga og við föðurforeldrarnir bíðum bara eftir að hún fari að tala. Skiljum reyndar nú þegar margt af því babli sem hún lætur sér um munn fara.

Á Fésbókinni talar hver upp í annan en mesta furða er hve margt kemst til skila. Engum er ætlandi að fylgjast með öllu sem þar fer fram. Sú meinloka virðist hinsvegar hrjá suma bloggara að þeir geti lesið öll blogg eða a.m.k. öll þau sem einhver veigur er í. Það er samt tómur misskilningur og veldur sumum oflestri. Hann lýsir sér einkum í því að viðkomandi er ekki málum mælandi og finnst hann sífellt vera að missa af einhverju. Hlustar á fréttir á harðahlaupum. Má helst ekki vera að neinu nema lesa og lesa.

IMG 2946Myndasögufígúrur á húsvegg.


Bloggfærslur 15. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband