1103 - Skattskráin 2010

Að Moggabloggsvist mín skuli vera ókeypis með góðri þjónustu og tryggja þar að auki allnokkra útbreiðslu hefur vissulega áhrif á ákvörðun mína um tryggð við þetta bloggsvæði. Það hefur líka áhrif að Moggabloggið var alveg frá upphafi úthrópað sem óalandi og óferjandi af snobbelítunni í blogginu. Mér er alveg sama um það og líka sama þó sumir Moggabloggarar næli sér í meiri vinsældir en þeir eiga í rauninni skilið með því að krækja í sem flestar og mest krassandi fréttir.

Það er árleg skemmtun að rífast um skattskrána. Blöðin velta sér sem mest uppúr þessu og þeir sem eru á móti hamast við að útskýra af hverju tekjur eigi að vera leyndarmál. Aðeins er leyfilegt að skoða þetta í visst langan tíma og ýmsar takmarkanir eru á skoðuninni. Þetta millibilsástand er asnalegt. Þeir sem eru svo óheppnir að blaðamenn álíti þá fræga verða að sæta því að fá birtar upplýsingar um það opinberlega hverjar tekjur þeirra eru. Aðrir sleppa.

Eðlilegast væri auðvitað að þetta væri með öllu lokað alltaf eða opið öllum á netinu.

Langstærsti galli bloggsins er hve pólitísk skrif eru þar áberandi. Það efni virðist vera vinsælt og heimsóknir margar hjá þeim sem það stunda. Margir þeirra leggja áherslu á að tengja blogg sín við fréttir á mbl.is. Það getur verið beggja handa járn því fréttirnar takmarkast við það sem gerist á hverjum tíma og pólitíska sýnin hjá mbl.is er oft skrýtin. Svo keppast bloggarar jafnan við að vera sem neikvæðastir og oft eru þeir hver öðrum líkir í umfjöllun sinni.

Annar stór flokkur í blogginu er málfarsumræðan. Hún er oft mjög smásmuguleg og leiðinleg. Auk þess er vafamál að hún geri nokkurt gagn. Til þess er hún of tilviljanakennd og losaraleg. Þeir sem helst þyrftu á málfarslegum leiðbeiningum að halda lesa hana greinilega ekki.Til hvers er þá að vera að þessu?


Bloggfærslur 7. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband