1099 - Kristnitökuhraun

Eftir talsverða orrahríð í athugasemdakerfi mínu er nú farið að lægja í Grefils&Kristins-málinu. Búið er að loka báðum bloggunum hans Grefils og er það helsta afleiðing þessarar deilu. Það sem eftir situr að mínum dómi er það að eins og oft vill verða fara bloggdeilur (séstaklega um trúarbrögð) gjarnan úr böndunum. Sigurður Þór Guðjónsson hefur þó oft staðið fyrir slíkum deilum án þess að skaði hafi hlotist af. (Finnst mér). Grefill braut reglur mbl.is í eftirmálanum og verður að gjalda þess. 

Að annar deiluaðila skuli hafa haft úrskurðarvald í sambandi við form umræðnanna sjálfra er galli sem aðilar hefðu átt að sjá í upphafi. Það sem skeð hefur í þessu máli í dag fyrir utan lokunina sem áður er áminnst er að Kristinn kvartaði við mbl.is útaf fyrirsögnunum hjá Grefli og síðar náðu þeir samkomulagi á bloggsíðu Óskars Helga Helgasonar (svarthamar.blog.is) en það samkomulag fór síðan í vaskinn og ég veit ekki hvernig þessu reiðir af.

„Hverju reiddust goðin þá er hraun það brann sem nú stöndum vér á?" Sagði Snorri goði á Alþingi fyrir margt löngu. Þetta var gáfulega ályktað hjá honum og ekki aðrir klárari í jarðfræðinni á þeim tíma. Þá bjó annar goði sem Þóroddur var nefndur á Hjalla í Ölfusi. Gott ef hann var ekki lögsögumaður. Þá var Kristnitökuhraunið (sem enginn veit nú hvar er) að renna í áttina að Hjalla. Var Svínahraun kannski Kristnitökuhraun? Minnir að ég hafi einhverntíma heyrt því haldið fram.

Nú er ég búinn að finna aftur bloggið hans Davíðs Þórs. Það var Harpa Hreinsdóttir sem vísaði mér á það. (Já, ég er spar á linkana. Man ekki linkinn á Davíð - gúglið hann bara.) Var nefnilega alveg búinn að týna honum. Setti hann umsvifalaust í „readerinn" minn en þar eru samankomnir allir mínir uppáhaldsbloggarar. (Og jafnvel fleiri) Ég sé Fréttablaðið afar sjaldan (og nenni jafnvel ekki að lesa það ef ég sé það). Davíð Þór skrifaði bakþanka í blaðið um daginn um norðlensku hljóðvilluna. Gott hjá honum. Annars virðast ekki mjög margir haldnir þessari villu á háu stigi og gaman er að heyra hermt eftir henni.

Nú er sumri tekið að halla og útihátíðir hafa flestar tekist ákaflega vel þó nú sé á mánudegi farið að rigna hér í Kópavoginum. Mikið hefur verið drukkið af bjór og víni og margir setjast nú til vinnu endurnærðir á sál og líkama.


Bloggfærslur 3. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband