1098 - Veðurfar og Icesave

Öfgakenndur veðurfarsáhugi er einskonar lífsflótti. Alveg eins og of mikill áhugi á hvers kyns íþróttum er það. Stjórnmál eru samt ekki lífið sjálft þó sumir virðist halda það. Atvinnumál ekki heldur. Listasnobb enn síður. Heppilegast er að blanda öllu saman. Hafa áhuga á sem flestu. Heilmiklu er hægt að ráða um það en þó ekki öllu. Allir eru betri en náunginn í einhverju. Bloggi ef ekki vill betur. 

Þessi var nokkuð góður (eða átti a.m.k. að vera það) Ég er búinn að blogga svo lengi að sumir eru farnir að telja mig betri en náungann í því. (Þar á meðal ég sjálfur.) Erfiðast í því stríði öllu er að þegja. Sumt er algjör óþarfi að blogga um og í athugasemdum er auðvelt að glata sjálfum sér og fimbulfamba villt og galið öllum til ama.

Finnur Bárðarson bloggar um handahreyfingar Ögmundar Jónassonar og telur þær benda til þess að hann hugleiði mjög forsetaframboð. Ég hef tekið eftir þessum handahreyfingum Ögmundar, vængjaslætti ÓRG og spenntum greipum Margrétar Tryggvadóttur, en tel að meira felist í forsetaembættinu en handahreyfingarnar einar. Ég kaus ÓRG á sínum tíma og þó mér finnist hann hafa brugðist á sumum sviðum er hann ennþá minn forseti. Tek ekki undir áróður allra þeirra sem telja hann óalandi og óferjandi. Forsetaembættið er heldur ekki óþarft. Allra síst eins og stjórnarfarið er á þessu landi. Stjórnarskrá Íslands er líka fremur lélegt plagg.

Alltaf er gaman að andskotast á blogginu. Er líka að æfa mig í að setja hitt og þetta mismerkilegt á fésbókina. Þá get ég sleppt að blogga um það. Stundum dettur mér of margt í hug til að hægt sé að setja það allt á bloggið. Þá er gott að eiga fésbókina að.

Vissulega er búið að flækja Icesave-málið fram og aftur á allan mögulegan hátt. Eftir stendur þó í mínum huga að Íslenska ríkisstjórnin (studd af nægilegum fjölda þingmanna sem til þingsetu voru kjörnir af þartil bærum aðilum) ábyrgðist (og greiddi, eða tryggði greiðslu á) allar innistæður aðila sem búsettir voru á Íslandi en ekki annarra.

Slík mismunun er ekki liðin hjá samtökum þjóða. Kannski er hægt að komast hjá að greiða Icesave en þá erum við Íslendingar ekki tækir í alþjóðlegt samstarf. Kannski fyrirgerðum við þeim rétti okkar með því að hafa ekki nægilegt eftirlit með vafasömum bankaeigendum.

Og nokkrar myndir:

rau22Rótarhnyðja.

rau33Stigi í skógi.

kjós16Krækiber.

kjós23Komiði sæl.

kjós26Sveitaverslun.


Bloggfærslur 2. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband