1108 - Enn um trúmál

Mér heyrðist eftirfarandi samtal eiga sér stað um daginn. Kannski voru þetta þeir Kiddi og Doktorinn. Líklega er ekkert að marka þetta og kannski voru þetta einhverjir allt aðrir. Ef þetta er þá ekki tóm ímyndun hjá mér. 

K: Af hverju hafa þeir ólíku frumuhópar sem saman mynda líkama manna og dýra ákveðið að vinna saman?

D: Veit það ekki, en finnst óþarfi að gera ráð fyrir einhverjum tilgangi með því.

K. Er lífið þá tómt tilgangsleysi?

D: Líklega.

K: En er siðferði til einhvers?

D: Sennilega ekki. Samt er vissara að gera ráð fyrir því.

K: Og vera semsagt ekki alvondur?

D: Gæði og vonska hafa enga merkingu. Eru bara eftiráskýringar.

K: Allt það góða og fallega sem fyrirfinnst er það þá bara eigingirni?

D: Já.

K: Úff. Siðferði stjórnar þá ekki mönnum?

D: Alls ekki.

K:  Og himnaríki stjórnar þeim þá ekki heldur, er það?

D: Ennþá síður. Einhverntíma var það þó svo.

K: Og það er þá þroskamerki að afneita nú slíkum hégiljum?

D: Það finnst mér.

K: Hvaðan kemur vitundin?

D: Hef ekki hugmynd um það. Hvort ertu að tala um vitund manna eða dýra?

K: Er öruggt að hún sé ólík?

D: Kannski ekki, en er líklegt að vitund ógeðslegrar pöddu sé lík mannlegri vitund? Hver skapaði veirur? Spurði Helgi Hós.

K: Er ekki vitundin um sjálfið grunnurinn að mannlegri tilveru?

D: Vitund eða grunur. Það er ekkert víst að þitt sjálf líkist mínu.

K: Vitund eða grunur segirðu. Sjálfið er til. Það er enginn grunur.

D: Sjálf mannsins já.

K: En er sjálfið ekki til hjá dýrum?

D: Nei, það er í besta falli grunur.

K: Hafa dýr þá ekkert sjálf?

D: Nei.

K: Ertu viss?

D: Já.

K: Er það þá vitundin um sjálfið sem aðskilur menn og dýr?

D: Kannski.

K: Og kannski það eina?

D: Kann að vera.

K: Dýrin hafa þá ekkert sjálf, en einhverja vitund um tilveruna?

D: Já, ég býst við því.

K: Sagt er að dauðinn sé eina staðreynd lífsins.

D: Ef enginn dæi væri lífið öðruvísi en það er.

K: Dauðinn er semsagt nauðsynlegur?

D: Óhjákvæmilegur.

Nei, þetta er of háspekilegt fyrir mig. Læt það samt flakka ef einhverjir skyldu vilja ræða þessi mál.


Bloggfærslur 12. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband