1097 - Grefill og Kristinn

Deila þeirra Grefils og Kristins Theódórssonar kemur mér fyrir sjónir sem alltof ómarkviss og orðmörg. Kristinn er fastur í sínum skilningi á rökræðum og fremur hógvær. Grefill finnst mér hafa komið skyndilega fram sem orðhákur hinn mesti. Fæstir bjuggust held ég við því. Kannski er hann „troll" en hann er þá óvenju skemmtilegur sem slíkur. 

Deilu þeirra finnst mér vel mega ræða um án þess að nefna trúmál sem þeir þó deildu í fyrstunni um. Báðir vildu ráða því hvernig umræðan þróaðist og auðvitað var Kristinn í betri aðstöðu við það þar sem umræðan fór fram á hans bloggi.

Veit ekki hve margir fylgdust með þeirri deilu né hve margir fylgjast nú með eftirköstum hennar. Þau eru samt ekki síður áhugaverð en deilan sjálf. Grefillinn boðar ritgerð um net-ofbeldi og ég bíð eftir henni.

Hægir svefn á meltingu? Ég spyr sjálfan mig að þessu vegna þess að ég get alls ekki tekið það gott og gilt þó mér sé sagt að morgunverður sé besta og mikilvægasta máltíð dagsins. Að óathuguðu máli gæti ég álitið að meltingin ætti að geta dundað sér við sín störf meðan maður sefur og þarf ekki að vera að gera neitt annað. Þykir nefnilega best af öllu að fá mér eitthvað í gogginn rétt áður en ég fer að sofa en samkvæmt morgunverðarvísindunum ætti það ekki að vera hollt. En af hverju?

Þéranir eru sjaldgæfar í auglýsingum núorðið. Þó ekki með öllu óþekktar. Heyrði nýlega sagt í útvarpsauglýsingu: „Kaupið yður (eitthvað sem ég man ekki hvað var) - Verslunin Geysir." Véranir eru þó með öllu aflagðar í máli manna. Síðasti maðurinn sem ég man eftir að véraði sig með látum og gerði það vel var Kristján Eldjárn forseti.

Icesave-vitleysan kemur til með að tröllríða fréttum bráðlega og ekki síðar en þegar þingið kemur saman í haust. Líklegast er að hún blandist Evrópusambandsviðræðunum þó ekki sé ljóst hvernig hún gerir það. Sjálfstæðismenn og aðrir hrunverjar hljóta að reyna að koma því í gegnum þingið að hætt verði við þær viðræður.

Og nokkrar myndir:

rau06Mosavaxinn staur.

rau009Svartur sveppur.

ak040Hið úfna Akrafjall.

kjós11Fífa.

kjós14Foss.


Bloggfærslur 1. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband