1073 - Facebook og blogg einu sinni enn (nr. 473??)

Það að tala alltaf illa um feisbókina og skrifa meira á bloggið en hana er auðvitað tilraun til að sýnast merkilegri en aðrir. Ef teljarinn á blogginu sýnir einhvern lestur að ráði þá er freisting að halda sig frekar við það. Að fá svo marga fésbókarvini er heilmikil fyrirhöfn. Og svo veit maður ekki hverjir fela skrifin manns. Þá er betra að fimbulfamba út í loftið og vona að sem flestir álpist til að lesa það sem þar stendur.

Eitt er það þó sem feisbókin hefur fram yfir bloggið. Þar geta menn með engu móti litið á skrif sín sem varanleg og einhvers virði en kannski hættir sumum bloggurum til þess.

Sigurður Þór Guðjónsson birtir stundum blogg-greinar eftir sig á Moggablogginu og tekur þær svo niður. Birtir þær síðan aftur og þá kannski breyttar og bættar, hvað veit ég. Þetta er galli og ef maður hefur kannski kommentað á greinina þá gæti kommentið verið orðið marklaust. Ég nenni t.d. yfirleitt ekki að skrifa mikið um málfarsfjólur á netmiðlum sem þó eru algengar. Meðal annars er það vegna þess að oft eru þær leiðréttar fljótlega.

Þegar ég er búinn að pósta grein á bloggið mitt þá finnst mér að lesendur og þeir sem láta svo lítið að kommenta á hana eigi hana. Mér finnst ég bara hafa leyfi til að gera lítilsháttar stafsetningarbreytingar og þessháttar á henni. Þetta kann þó að breytast síðar, veit það ekki.

Úr því að ég er kominn í kvörtunarhornið er hér önnur bloggumkvörtun. Björn Birgisson liggur á því lúalagi að birta sömu blogg-greinarnar aftur og aftur undir mismunandi fyrirsögnum. Það finnst mér að minnsta kosti. Kannski er þetta bara óvart hjá honum en það fer samt í taugarnar á mér því greinarnar er oft mjög góðar. Man eftir því að einu sinni var gert grín að Birni Bjarnasyni þar sem hann var að breyta blogg-greinum frá Kína. Varla vill nafni hans Birgisson falla í sama pyttinn.

Annars á ég svolítið erfitt með að úttala mig um þetta því oft rekst ég á greinar í google-readernum mínum sem ég hef lesið áður. Ég get engum kennt um það nema sjálfum mér. Trassa nefnilega oft að lesa það sem readerinn safnar saman.


Bloggfærslur 8. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband