1069 - BBS o.fl.

Gæti svosem haldið áfram að fjasa um skilningarvitin en nenni því ekki. Eitt af því sem verður meira áberandi þegar maður eldist er hvað maður nennir fáu. Athyglisverð athugasemdin frá hinum bráðunga Guðmundi Bjarnasyni hér við bloggið mitt í gær. Man vel hvað okkur þóttu BBS-in merkileg í gamla daga. 

Vorum við svona langt á undan okkar samtíð? Held ekki. En skilningur okkar á því hvað væri merkilegt var ekki sá sami og annarra . Flestum fannst asnalegt að nota símann til annars en að kjafta í hann. Nú heyrir þetta allt saman sögunni til og þykir fáum merkilegt. Varla öðrum en einstöku grúskurum.

Sem dæmi um það hve skilningur fólks á eðli tölvusamskipta var takmarkaður á þessum tíma man ég eftir grein um BBS í Morgunblaðinu sem sennilega birtist þar eftir að við BBS-arar buðum upp á útlandasamband fyrir afar lítinn pening.

Þar var óskapast yfir okrinu hjá íslenskum BBS-um og birt númer í Bandaríkjunum þar sem sagt var að hægt væri að ná sambandi við ókeypis BBS. Enda væru þau oftast ókeypis í Guðs eigin landi. Greinarhöfundur gætti þess bara ekki að til að ná sambandi við þetta númer þurfti að borga Pósti og Síma óheyrilegt gjald. Margfalt BBS-mánaðargjald fyrir viðtalsbilið.

Þjónusta margra BBS-a á Íslandi var reyndar ókeypis og almennt var þjónusta þeirra ódýr. Sennilega alltof ódýr enda lognuðust þau útaf í samkeppninni við Internetið.

Þegar ég var nýkominn úr baði í gær fann ég upp nýtt spakmæli. Það er svona: „Aumur er úrlaus maður ." Ég var nefnilega búinn að finna gleraugun og leit á handlegginn á mér til að vita hvað klukkna væri. Minnir mig á orðið„Kúbúá", sem söguhetjan í „Sulti" fann upp í svengd sinni og umkomuleysi. Frábær saga. Vildi að ég ætti hana ólesna.

Merkilegt að Guðmundur skuli segjast vera háður því að lesa bloggið mitt. Ég er nefnilega orðinn háður því að skrifa það. Sama hve vitlaust það er. Það er þó að minnsta kosti eitthvað öðruvísi en flest önnur. Það finn ég vel.

Ein röksemd þeirra sem tjáð hafa sig um gjaldeyrisdóm hæstaréttar er að það sé svo afskaplega flókið (fyrir bankana) að reikna út alla þessa mismunandi samninga. Sú röksemd er að engu hafandi. Fyrir um 50 árum reiknaði ég út ullaruppbót fyrir alla bændur á Suðurlandi (Viðskiptamenn KÁ og MBF). Vissulega var það dálítið verk en síðan hafa orðið framfarir í tölvutækni og nú er þetta alveg áreiðanlega bara spurning um forritunarvinnu sem stendur ekki í neinu sambandi við fjölda samninganna.

Og nokkrar myndir.

IMG 2225Brosandi steinn með eitt auga og neflaus.

IMG 2233„Kríuskítur og kamrafretur" (þ.e.a.s. sígarettur)

IMG 2251Í öruggu skjóli.

IMG 2276Auðvitað er andlit efst á þessum fjára.

IMG 2163„Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti."


Bloggfærslur 4. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband