1068 - Bjölluat í Brussel

Er umsókn okkar Íslendinga kannski ekkert annað? Allt í plati við meintum þetta ekkert. Eru atkvæði aumingja þingmannanna einskis virði? Sumir í vinstri grænum greiddu atkvæði með umsókn þó þeir séu á móti henni. Sögðu þeir að minnsta kosti. Sumir sem atkvæði greiddu á móti voru örugglega í hjarta sínu meðmæltir umsókn, en flokkshandjárnin héldu. Breski íhaldsflokkurinn er á móti aðild en ætla Bretar að ganga úr ESB? Nei, aldeilis ekki. Þar líður þeim vel. Geta andskotast á minni máttar án þess að ESB skipti sér af því. 

Jón Bjarnason er á móti ESB-aðild. Samt er hann ráðherra í ríkisstjórn sem hefur sótt um aðild og mun auðvitað reyna með öllu móti að koma í veg fyrir hana. Eflaust eru fleiri mótfallnir aðild en meðmæltir. Þessvegna lætur Bjarni Ben. svona. Ef þetta snerist nú við á næstunni, ætli Bjarna finnist að við ættum þá að sækja um aftur?

Að gengistrygging njóti forgangs gagnvart verðtryggingu er kannski ekki sanngjarnt, en sanngirni hefur hingað til ekki haft neinn forgang í samskiptum manna. Síst af öllu þegar peningar eru annars vegar.

Maðurinn hefur fimm skilningarvit: Sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu. Svona lærði ég romsuna endur fyrir löngu. Smekkur á við bragðskyn og tilfinning við snertiskyn. Oft er talað um sjötta skilningarvitið og þá er átt við skilning sem erfitt er að skýra hvernig fenginn er. Getur verið draugagangur, trúarreynsla, röntgensjón og hvað sem er.

Mörg dýr hafa greinilega annarskonar skilningarvit en við. Ekki dugir að spyrja þau svo við vitum lítið um hvernig þau eru. Menn (t.d. nautabanar) geta lært ágætlega á viðbrögð dýra við ýmsu áreiti en það segir ekki endilega mikið um skilningarvitin.

Sú blanda sem heili mannsins myndar samkvæmt tilkynningum frá þessum skilningarvitum gerir hvern einstakling einstakan. Við getum aldrei verið alveg viss um að aðrir skynji heiminn á sama hátt og við.


Bloggfærslur 3. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband