1087 - Ágætt virðist að hafa nöfn í fyrirsögn

Svanur Gísli Þorkelsson skrifaði um daginn á sínu bloggi um vondu fráskildu konuna í Japan sem setti barnið sitt í þvottavél. Það er alveg rétt hjá Gísla að stundum er umgerð fréttar miklu forvitnilegri en fréttin sjálf. Þessi tiltekna frétt finnst mér bera öll einkenni svonefnra „urban legends" sem oft eru kallaðar flökkusögur á ástkæra ylhýra. Kæmi ekki á óvart þó erfiðlega gengi að sanna þessa sögu, væri það reynt.

Trúmálaumræðan hjá Grefli og Kristni er að fara í hundana eins og við mátti búast. Formið er misheppnað. Hentar illa að þurfa að skrolla langar leiðir til að finna það sem maður vill lesa. Trúarþrætur eru líka oftast afar ómarkvissar fyrir alla nema þátttakendur og fáeina aðra sem mikinn áhuga hafa. Kannski verður það líka þannig með ESB-umræður þegar fram líða stundir. Einhver var um daginn að óskapast yfir því á bloggi hve ESB-umræðan væri fyrirferðarmikil . Mér finnst hún ekki vera byrjuð.

Lenti í hremmingum á Facebook. Tölvan blikkaði og blikkaði og vildi ekki fara þangað sem ég ætlaði að senda hana. Málið leystist samt og ég fór að hugsa um fyrirbrigðið fésbók. Látum nafngiftina á íslensku liggja á milli hluta. Þar sigrar á endanum sá sem meira hefur aflið. Forritunin þar er reyndar nokkuð góð og þeir sem þar véla um hafa gert sér grein fyrir því að Netnotendur vilja yfirleitt fá allt ókeypis. Vel er þó hægt að misnota þær upplýsingar um fólk sem Facebook aflar. Það verður örugglega gert og er líklega byrjað. Auglýsingar allar eru sífellt að verða markvissari og beinskeyttari. Það má þakka fyrirbrigðum eins og gúgli og fésbók ásamt fleiri forritum.

Séra Baldur (Kristjánsson í Þorlákshöfn) skrifaði um daginn athyglisverðan pistil um líffæragjafir. Þar er ég um margt sammála honum. Samt er einhver mesta hryllingssaga sem ég hef heyrt frá Kína sú að þar séu dauðadæmdir fangar líflátnir eftir því hver staðan er á líffæramarkaðnum. Auk þess sem ég er alfarið á móti dauðarefsingum þá er þetta jafnvel hryllilegra en sláturhúsasögurnar sem maður hefur heyrt og eru þær þó margar miður fallegar.

Fyrirsögnin á blogginu mínu í gær benti til að það væri um hrunið öðru fremur. Kannski var það þessvegna sem Moggabloggsteljarinn sýndi fleiri heimsóknir en venjulega.


Bloggfærslur 22. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband