1082 - Þjóðarsáttin 1990

Stundum finnst mér eins og bloggið mitt hafi einhver áhrif. Þá á ég ekki endilega við að skoðanir lesenda breytist í átt við það sem mér finnst. Heldur að einhverjir taki skrif eftir mig til greina að einhverju leyti og haldi áfram með hugsunina og hún komist þannig í útbreiddari fjölmiðla og hafi þar með áhrif. Mér finnst nefnilega að stundum sé ég frumlegur og að fram komi í mínu bloggi sjónarmið og annað sem ekki er að finna allsstaðar annars staðar. 

Las í gær grein um þjóðarsáttina margfrægu frá árinu 1990. Þessi grein birtist í 29. árgangi tímaritsins „Sagnir" frá árinu 2009 og er eftir Árna H. Kristjánsson. Þetta rit fékk ég lánað á bókasafninu og las strax þessa grein frá upphafi til enda. Man vel eftir þjóðarsáttinni og var svolítið innblandaður í verkalýðsmál á þeim tíma og fyrr. Sat meðal annars nokkur ASÍ-þing og tók þátt í samningafundum. Ævisögu Steingríms Hermannssonar las ég á sínum tíma og hreifst mjög af henni. Man líka vel eftir Steingrími. Í mínum huga var hann einn af merkustu stjórnmálamönnum Íslands.

Í þessari grein er rætt um þjóðarsáttina svonefndu og hverjir hafi átt frumkvæðið að henni og átt mestan heiður af því að hafa komið henni á laggirnar. Höfundur greinarinnar berst við það sem hann kallar goðsögnina um þetta mál. Enginn vafi er á að þetta er einhver mesti stjórnmálasigur hérlendis á seinni hluta síðustu aldar. Til siðs er að þakka þetta einkum aðilum vinnumarkaðsins sem svo eru kallaðir. Ríkisstjórnin hafi bara lufsast með af því að hún gat ekki annað. Þetta er viðtekinn hugsunarháttur og náði kannski hámarki sínu þegar Einar Oddur Kristjánsson féll frá langt um aldur fram.

Höfundur telur að ríkisstjórnin sem þá var hafi átt mikinn þátt í þessum atburði og rekur upphaf hans til hugmynda Þrastar Ólafssonar frá 1986. Þá var hann formaður Dagsbrúnar og lagði fram hugmyndir sem svipaði talsvert til þeirra sem frægar urðu í þjóðarsáttinni umtöluðu árið 1990.

Ég er í hópi þeirra sem tel að ríkisstjórnin sem sat árið 1990 undir forystu Steingríms Hermannssonar hafi átt mikinn þátt í því að þjóðarsáttin varð að veruleika.  Sjálfur var ég mjög á móti henni og taldi ASÍ fórna alltof miklu með því að falla frá vísitölubindingu launa og hélt að slíkt gæti einungis staðist um skamma hríð.

Svo fór þó ekki og þau umskipti í lífskjörum sem orðið hafa síðan eru mikil. Vissulega hefur talsvert af þeim horfið með bankahruninu 2008 en samt tel ég þjóðarsáttina 1990 hafa verið til heilla fyrir þjóðina.

Skrapp til Hveragerðis um daginn. Þar var margt að sjá. Hér eru nokkrar myndir þaðan:

009Gufa úr fjallstoppi.

010Borhola.

031Grýla eða Grýta. Ekki er eining um hvort nafnið eigi að nota.

042Listaverkið „Þúfnahopp".

054Veit ekki hvað þessi veggur heitir en merkilegur er hann.

074Svona var umhorfs við Gamla Barnaskólann (sem reyndar er búinn að vera gamall ansi lengi.)


Bloggfærslur 17. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband