1081 - Ég vildi það sem ég vildi

Svo er margt rímið sem flímið.

Ég vildi það sem ég vildi.
Að rassinn á henni Hildi
yrði að stórum tólgarskildi.

Þetta er ekki eftir mig enda er ég enginn sérstakur tólgaraðdáandi. Sumir vita jafnvel ekki hvað tólg er. Kannski er hún ekki einu sinni seld í verslunum lengur. Hvað veit ég? Í mínu ungdæmi var lýsi og tólg oft hrært saman og úr varð bræðingur svonefndur sem notaður var sem viðbit á brauð. Ekki var hann góður en það mátti svæla honum í sig. En svona er ég víst orðinn gamall. Nútildags mætti mikið ganga á áður en fólk færi að nota bræðing ofan á brauð. Eða hræring á kvöldin en hann var gerður með því að hræra saman skyri og köldum hafragraut.

Öfgasinnaðir hægri menn nefna oft Kína sem valkost á móti ESB. Já, pólitíkin er oft mjög einkennileg. Verð að segja fyrir mig að heldur vildi ég ESB.

Það hvernig fólk skiptist nútildags hér á Íslandi eftir afstöðu til Icesave og ESB ber vott um afar ólíkan hugsunarhátt. Þessi ólíki hugsunarháttur kom áður fyrr einkum í ljós í sambandi við afstöðuna til veru Bandaríska hersins.

Vel má kalla andstöðu við þessi fyrirbrigði (Icesave og ESB) þjóðernissinnaða. Þróunin í heiminum er í áttina frá þjóðríkinu til aukinnar samstöðu og samvinnu milli þjóða. Auðvitað er ekki sjálfgefið að slík stefna sé alltaf til heilla.

Alllangt er síðan almennar styrjaldir hafa verið háðar. Áður fyrr virtist tortryggni og hatur milli þjóða leiða til víðtækra styrjaldarátaka með vissu millibili. Hugsanlegt er að ESB hafi rofið þann vítahring í Evrópu. Þjóðir sem vinna mikið saman fara síður í styrjaldir hver við aðra.

Hvaða blogg lesa bloggarar? Ég er nú svo innbilskur að halda að þar sé ég ekki neðstur á blaði. Ef dæma skal eftir athugasemdum þekkra bloggara hér þá eru þeir nokkrir sem lesa blogg mitt reglulega. Kannski er það vegna þess að ég hef náð betri tökum á Sæmundarhættinum í bloggi en þeir. Það er að blogga um blogg og þá aðallega um sjálfan sig. Mér hefur þó aldrei tekist að fá Stefán Pálsson til að kommenta hér.

Sníkjubloggun (sem er kannski hluti af Sæmundarhættinum) er glósa sem ég lærði af Hörpu Hreinsdóttur. Slík bloggun kom til umræðu í athugasemdum hjá mér í gær og tekur einkum til þess í mínum huga að menn skrifa þá langt mál og ýtarlegt í athugasemdum við önnur blogg í stað þess að blogga sjálfir. Menn eru sjaldnast langorðir í athugasemdum hér á mínu bloggi og auðvitað er gaman að fá slatta af þeim. Reyni oft að fjölga þeim svolítið sjálfur.


Bloggfærslur 16. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband