1032 - Kartöflugrösin féllu um nóttina

Einhverntíma á útrásarárunum var allt í einu til of mikið af peningum til að henda í gatnaframkvæmdir í Reykjavík. Ekki var hægt að láta þessa peninga í það sem mest var aðkallandi því ekki var búið að ákveða hvernig Sundabrautin ætti að vera. Því var ákveðið að færa Hringbrautina á sem allra dýrastan hátt og með sem mestum slaufum og brúarsporðum.

Það hafði líka þau áhrif að önnur ákvörðun sem var alveg að verða tilbúin var afsakanlegri. Reisa skyldi stórkostlegan hátæknispítala þar sem Hringbrautin hafði verið. Enn er verið að slást við þann draug. Aftur á móti er Tónlistarhússdraugurinn víst búinn að sigra skynsemina en förum ekki nánar út í það.

Mörgum finnst Guðbergur Bergsson lifa um of á fornri frægð og vera heldur leiðinlegur. Mér finnst margt sem frá honum kemur um þessar mundir vera óttaleg fordild og lítið merkilegt. Man samt að bókin „Tómas Jónsson metsölubók" hafði mikil áhrif á mig. Man líka að mér fannst sumir dómar um þá bók hjálpa mér til skilnings á henni.

Lengi fyrir þá bók hafði tíðkast að lýsa samförum í bókmenntaverkum með því að stökkva skyndilega í yfirdrifnar náttúrulýsingar. Ekki er þörf á að lýsa því mikið en auðvitað voru allir á hnotskóg eftir samfaralýsingum. Eftir að aðdraganda þeirra hafði verið lýst á þann hátt sem höfundinum þótti við hæfi var sem allra skáldlegust og stórkarlalegust náttúrulýsing látin taka við. Hjá Guðbergi var sú lýsing svona:

„Kartöflugrösin féllu um nóttina."

Þetta var á margan hátt „banebrydende" svo dönsku sé slett.

Kannski verður eitt það merkilegasta sem útúr bankahruninu kemur að loksins verði farið að hrófla við gjafakvótanum. Óheft framsal hans og þar með eign ákveðins útgerðaraðals á óveiddum fiski var sú afsökun og upphaf auðæfa í bland við óhefta einkavæðingu sem gerði það að verkum að bankakerfið varð eins stórt og raun ber vitni. Eyðslusemi sú og óhefta gróðahyggja sem einkenndi útrásartímann var ekki bara útrásarvíkingunum að kenna heldur öllum almenningi og grútmáttlausum stjórnvöldum.

Var að róta í gömlum ljósmyndum og fann meðal annars nokkrar gamlar skólaferðalagsmyndir. Líklega frá 1957:

IMG 00011Hér eru Mummi Bjarna, Örn Jóhanns og Kiddi Antons.

IMG 00021Þetta eru Erla Traustadóttir og Jóna Helgadóttir.

IMG 00031Grund í Eyjafirði.

IMG 00041Gunnar Benediktsson. Veit samt ekki á hvaða tröppum hann er.

img 0051Hólar í Hjaltadal.


Bloggfærslur 28. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband