1022 - Nútíminn er trunta

Í grein um forfeður sína á Vestfjörðum, sem margir og þar á meðal ég hef hrósað mjög, segir Lára Hanna Einarsdóttir meðal annars:

Vegir voru engir þegar amma mín ólst þarna upp, og fólk þurfti annaðhvort að fara leiðar sinnar með bátum þess tíma eða ganga yfir fjöll og firnindi. Annað en nú til dags þegar fólk þeysir á sínum fínu bílum um malbikaða vegi þvers og kruss um landið og heldur að þetta hafi alltaf verið svona.

Þarna finnst mér Lára Hanna fara svolítið framúr sjálfri sér. Það er eflaust rétt að vegir hafi engir verið á þessum tíma. Hestar þekktust þó á Vestfjörðum en voru sjaldgæfari þar en annars staðar. Að fólk sem þeysir um á malbikuðum vegum í sínum fínu bílum haldi að þessir vegir hafi alltaf verið til er fjarstæða og eingöngu fullyrt útaf mögulegum áhrifum.

Vissulega er þetta skelfilegur sparðatíningur og ég fer ekki ofan af því að í heild er greinin verulega góð.

Ekki er annað að sjá en blogg Hildar Helgu sé enn lokað. Sé ekki betur en það sé verk þeirra Morgunblaðsmanna. Endurtek að þetta skil ég ekki. Hildur Helga er einn af bestu bloggurum Moggabloggsins og þó hún eigi til að fullyrða um hluti sem hún veit ef til vill ekki um með vissu þá er sjónarsviptir að því að missa hana héðan.

Á kaffistofu Pressunnar er óskapast út af því að Mogga-ritstjórar hafi í Reykjavíkurbréfi hallmælt óritskoðuðum og nafnlausum athugasemdum við fréttir Eyjunnar. Þarna eru þeir Moggamenn á hálum ís. Stór hluti Moggabloggsins er nefnilega ekkert annað en athugasemdir við fréttir á mbl.is. Oftast nær ekki nafnlausar að vísu, en það er í augum margra aðalatriði málsins. Svo er ekki. Nafnleysi getur hæglega átt sér ástæður. Ef sá nafnlausi er málefnalegur og svarar því sem til hans er beint finnst mér nafnleysið oftast í lagi.


Bloggfærslur 16. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband