1021 - Já, ég er þannig

Veit að það eru nokkrir sem lesa bloggið mitt reglulega. Þeim er nær. Þeir eru ofurseldir mínum hugsunum og skoðunum í dálitla stund hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Ég get spilað á tilfinningarnar og haft áhrif á skoðanir þeirra í svolitla stund. Allt er það undir því komið hve snjall ég er að skrifa. Á mínu bloggi get ég sagt það sem mér sýnist og geri svikalaust. Hef það samt alltaf í bakhöfðinu að líklega er ég óttalega fyrirsjáanlegur þó ég sé sæmilegur stílisti. Skrifa á þann hátt sem gamlir menn oftast gera. Allt var betra áður fyrr og nútíminn er trunta.

Er sæmilega hagmæltur og læt stundum vísur flakka. Kann heil ósköp af vísum (einkum klámvísum) en hef heldur lítinn áhuga á hver samdi. Tilefnið finnst mér skipta meira máli.

Er þá allt upp talið? Ekki finnst mér það. Mér finnst ég vera óskaplegur besservisser og alltaf vita alla hluti betur en aðrir. Er samt að mestu hættur að trana mér fram af því tilefni eins og ég gerði.

Svo tek ég einnig myndir en þær eru fyrirsjáanlegar líka. Reyni að forðast að vera of arty-farty eins og Goði Sveinsson sagði alltaf en ef ég tek mynd og dettur í hug um leið góður texti til að hafa við hana þá get ég yfirleitt ekki staðist að birta hana. Slíkar myndir eru oft ekki góðar en mynd+texti sleppur.

Alveg frá því ég var lítill hef ég haft gaman af að tefla. Á tímabili dreymdi mig skák og varð alltaf að fara einhvern ákveðinn manngang ef ég lenti á hellusteinum. Hélt einu sinni að ég mundi verða mikill skákmeistari þegar ég yrði stór. Það brást og ég stóð mig ekki einu sinni vel í fjölteflum. Eftir að ambissjónirnar hurfu finnst mér ennþá meira gaman að tefla og geri talsvert af því.

Svo virðist vera sem bloggsíðu Hildar Helgu Sigurðardóttur á Moggablogginu hafi verið lokað. Það skil ég ekki. Ýmislegt gengur á þó ég skilji það ekki. Þori ekki að spyrjast fyrir um hverju þetta sæti.


Bloggfærslur 15. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband