1019 - Uppstigningardagur eða Siggi var úti

Eftir því sem fleiri fréttir berast af eftirlýsingum, kyrrsetningum eigna, gæsluvarðhöldum og þess háttar hjá útrásarvíkingunum íslensku því auðveldara verður mér að þola þær kárínur sem efnahagsástandið síðustu misseri hefur valdið mér. Auðvitað á þetta ekki að vera svona. Ófarir annarra eiga ekki að hafa áhrif á sálarástand mitt. En svona er þetta og ég get ekkert að þessu gert.

Ég get ekki hætt að blogga. Vonandi gleðjast einhverjir yfir því. Sjálfum finnst mér það skaði því ég vildi svo gjarnan skrifa eitthvað markverðara. Er ég kannski sjálfur haldinn þeim fordómum gagnvart bloggi sem ég saka aðra stundum um? Veit það ekki en vildi svo gjarnan að bloggskrif væru ekki litin öðru eins hornauga og þau vissulega eru.

Hvers eigum við bloggarar að gjalda að vera álitnir svona óalandi og óferjandi? Erum við ekki alltaf að rembast við að vera gáfulegir og snjallir þó við fáum ekkert fyrir það nema skít og skófir og allt sem verst er í koppi kerlingar að hurðarbaki? Nú er ég víst farinn að endursegja þjóðsögur eða þess háttar.

Í stórum dráttum má segja að fimmtudagar falli niður á vorin sem kennsludagar og vinnudagar. Fyrsti maí er jafnvel stundum á fimmtudegi. Þetta er svolítið bagalegt en venst. Skyldi þetta vera svona annarsstaðar líka?

Sé alltaf dálítið eftir fyrsta desember. Einhver vorfimmtudagurinn eða jafnvel öskudagurinn hefðu mátt fjúka í staðinn. Fannst fyrsti desember alltaf svolítið hátíðlegur í gamla daga. Föstudagurinn langi hins vegar óskaplega langur og leiðinlegur. Helst átti manni að líða illa held ég.

Baggalútur segir að eftirfarandi vísa sé eftir Grím Thomsen. Því trúi ég varlega en útúrsnúningurinn er góður og í stíl við það sem allir hafa verið að hamast við í dag:

Siggi er úti og neglurnar nagar
það næst ekki í hann, með veggjum hann fer.
Logandi hræddur um Lundúnir kjagar
með lágfótu kroppandí hælaná sér.

Agga-gagg segir Eva á grjóti.
Agga-gagg hvæsir tófan á grjóti.

Alllanga tugthúsvist ætla ég hann hljóti,
- aumingja Siggi hann þorir ekki heim.

Og að síðustu fáeinar myndir:

IMG 1834Með húsið á bakinu. (Á svörtu malbiki, því miður)

IMG 1835Er tréð ekki fullstórt fyrir þetta hús?

IMG 1838Glæsilegur inngangur.

IMG 1843Sólstólar í úrvali.

IMG 1847Í sól og sumaryl.

IMG 1848Gamall staur.


Bloggfærslur 13. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband