1018 - Níu-menningarnir

Það er svo margt í sálarlífinu sem birtist í því hvernig maður speglast í áliti annarra. Fésbókin er auðvitað þannig spegill. Meira að segja sérsniðinn að því að henta sem flestum. Mér hentar hann hinsvegar ekki. Það að vera að skrifa einhvern skollan á veggi sem sumir lesa og sumir mæla með, en fæstir hafa verulegan áhuga á, þykir mér ekki áhugavert. Þá er bloggið betra. Þar skrifar maður það sem manni dettur í hug og þeir sem áhuga hafa kíkja þar inn. Aðrir ekki. 

Hætt er við að mál níu-menninganna sem kærðir hafa verið fyrir árás á Alþingi geti orðið mál sem mikið brýtur á. Forseti Alþingis vill fría sig allri ábyrgð á málinu. Það gengur ekki. Skrifstofustjórinn þar er henni ekki æðri. Vissulega er ekki þörf á að æsa sig óhóflega útaf þessu máli áður en dómur fellur. Hæstiréttur gæti síðan snúið þeim dómi við þó sá sem ákveðið hefur að einungis tuttugu og einn að nímenningunum meðtöldum fái að fylgjast með réttarhaldinu dæmi þeim ákærðu í óhag.

Varðandi mikinn fjölda starfa sem skapist við starfrækslu gagnavers á Reykjanesi minnist ég annars vegar að þegar fyrsta álverið tók til starfa hér á landi reiknuðu margir með að í skjóli þess mundi mikill fjörkippur koma í allan iðnað á landinu. Svo fór ekki. Einnig reiknuðu menn með mikilli vinnu Íslendinga við Kárhnjúkavirkjum þegar hún var í undirbúningi. Það brást. Auðvitað er ekki víst að eins fari á Reykjanesi en líklegt er það.


Bloggfærslur 12. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband