985 - Sníkjublogg

Af hverju eru menn eins og Steini Briem og Jóhannes Laxdal Baldvinsson að sníkjublogga svona mikið hjá mér? Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að ég er alls ekki að amast við þeim. Athugasemdir þeirra lífga svo sannarlega uppá bloggið mitt og með þessu verð ég eiginlega þríeinn. Þeir koma oft með önnur sjónarhorn á mál og eru duglegir við að koma með ábendingar um frekari fræðslu um þau efni sem til umræðu eru. Þar að auki hafa báðir greinilega gaman af vísnagerð og eru búnir að fá vissu fyrir því að slíku er ekki illa tekið hér.

Sníkjublogg er leiðindaorð en lýsir þó nokkuð vel því sem ég á við. Báðir eru þeir skráðir á Moggabloggið en nenna greinlega ekki að blogga neitt að ráði sjálfir. Geri ráð fyrir að þeir geri athugasemdir mun víðar en hér þó ég viti það að sjálfsögðu ekki. Ástæða sníkjubloggsins hér er kannski sú að þeir búist við að fleiri lesi skrifin en annars mundi vera. Athugasemdir eru sál bloggsins og það sem heldur mér hvað mest uppi við að skrifa daglega er fjöldi þeirra (í hófi þó) og lesendafjöldi samkvæmt Moggabloggsteljaranum.

Eflaust lesa einhverjir bloggið mitt reglulega. Vil bara minna þá á að oft eru athugasemdirnar athyglisverðari og skemmtilegri en bloggið sjálft. Til að missa síður af þeim ráðlegg ég að kíkja á athugasemdirnar við næsta blogg á undan. Það var ég vanur að gera þegar ég las fleiri blogg en núorðið. Það er nefnilega skemmtilegra að skrifa blogg en lesa.

Stofnuð hafa verið samtökin Þjóðareign. Skilst að þau muni einkum beita sér fyrir því í fyrstunni að afnema kvótakerfið. Því er ég hlynntur. Efast samt um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það. Samfylkingin gæti unnið sér inn þónokkur atkvæði með skynsamlegri stefnu í fiskveiðimálum. Jón Bjarnason ráðherra ætti að vera í Framsóknarflokknum.

Bara fyrir áhugamenn um hafragraut.

Nú er ég farinn að bæta kanel og hunangi og döðlum út í hafragrautinn hjá mér auk mjólkurinnar og alltaf verður hann betri og betri. Veit ekki hvar þetta endar.


Bloggfærslur 9. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband