984 - Vegaframkvæmdir

Á sínum tíma var ég mjög á móti því að Óseyrarbrúin yrði byggð. Það var dýr framkvæmd á þeirrar tíðar mælikvarða. Er enn á þeirri skoðun að hún hafi verið óþörf á þeim tíma. Borgarfjarðarbrúnni var ég hinsvegar meðmæltur mjög enda stytti hún verulega leið margra. Um Hvalfjarðargöngin þarf ekki að tala enda eru þau svotil nýkomin. 

Nú er rætt um tvöföldun vegarins austur að Selfossi. Margt bendir til að 2+1 mundi nægja og verða mun ódýrari framkvæmd. Efast samt ekki um að fljótlega verður hitt talið bera vott um framsýni mikla. En það er fjármögnum verksins sem vefst fyrir mönnum. Rætt er um vegtoll og hvernig hann verði innheimtur. Þarna verður að fara varlega og þó ekki sé þarna um landsbyggðarskatt að ræða eins og sumir vilja halda fram getur innheimta af þessu tagi skapað úlfúð og ósamkomulag.

Gísli Sigurbjörnsson sem eitt sinn var forstjóri Elliheimilisins Grundar lagði til að komið yrði upp mjólkurleiðslu yfir Hellisheiði og fékk fyrir vikið mynd af sér í Speglinum. Af þeirri framkvæmd varð ekki enda fáránleg mjög. 

Hvað er unnið með því að blogga svona oft og mikið eins og ég geri? Svosem ekki neitt. Mér finnst bara gaman að skrifa. Ef svo eru einhverjir sem vilja lesa þetta þá er það náttúrulega ágætt. Er samt ekki frá því að ég leggi alltof mikla vinnu í þetta og sé of háður því. Þetta er ekki átakalaust þó ég reyni að láta líta svo út. Er eiginlega vakinn og sofinn í því að velta fyrir mér hvað ég eigi að skrifa um. Skrifin sjálf eru ekki mikið vandamál. Lesa bara sæmilega yfir. Velja og hafna, snurfusa og lagfæra svolítið og annað ekki.

Eins og Stefán Snævarr bendir réttilega á voru flestir útrásarvíkinganna um tvítugt þegar verðbólgan stöðvaðist hér á landi. Siðferðismat þeirra er því verðbólgið (eða bara bólgið og úr lagi fært) Allt í einu var farið að verðlauna stíft áhættuhegðun og fjárhættuspil hverskonar en siðferðinu hrakaði. Það er stutt í villidýrið í manninum eins og sálfræðitilraunin fræga um fangana og fangaverðina sannaði á sínum tíma.

Dreymdi síðustu nótt heilmikla vitleysu um það að við Benni, ég og Áslaug vorum úti að labba í Kaupmannahöfn og Benni nappaði sér einhverju að drekka í brúðkaupsveislu þar. Svo urðum við viðskila og ég lenti í ýmsum hremmingum. Meðal annars á alveg myrkum og ljóslausum stað við endann á einhverju húsasundi. Vaknaði svo áður en ég fann þau hin eða komst heim á hótelið aftur.

Og nokkrar myndir:

IMG 1438Undir Hafnarfjarðarveginum forna.

IMG 1446Keilir og Trölladyngja.

IMG 1492Hugsi yfir öllum sviðasögunum.

IMG 1511Árbæjarsafn.

IMG 1563Grýlukerti.


Bloggfærslur 8. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband