30.4.2010 | 06:38
1006 - Í alvöru talað
Þetta með alvöruna og alvöruleysið sem Sigurður Þór skrifar í kommenti við bloggið mitt hefur valdið mér heilabrotum. Þetta á ekki bara við um blogg og fésbók. Heldur lífið sjálft. Það verður að nálgast það með talsverðu alvöruleysi annars er það óbærilegt. Mörgum er full alvara með því sem þeir skrifa á fésbókina og það er alltaf varasamt að gera ráð fyrir að fólk meini ekki það sem það segir. Þeir sem fátt segja um sína meiningu eða slá alltaf úr og í eru varasamastir. Það er ómögulegt að vita hvort þeir meina það sem þeir segja í það og það skiptið. Broskallar eru bölvun okkar tíma. Flestir nota þá til að dyljast fyrir öðrum.
Merkilegt hvað mér gengur oft vel að fimbulfamba um allan grefilinn þegar ég sest við tölvuna. Bloggin koma þá stundum næstum áreynslulaust á skjáinn. Þarf samt að lesa yfir. Annað ekki. Jú, kannski raða saman klausum. Er líka búinn að venja mig á að setjast við tölvuna af minnsta tilefni og raða orðum á skjá. Er oftast í bestu stuði ef ég verð andvaka og get ekki sofið. Þá er ekkert sem truflar.
Grefillinn sjálfur mælir með að ég setji bloggin mín bara líka á fésbókina. Mér hefur svosem dottið það í hug og kannski geri ég það og tek hugsanlega meiri þátt í snakkinu sem þar virðist ráða ríkjum en ég hef gert að undanförnu. En til hvers? Af hverju er ég að gera lítið úr fésbókinni? Þykist ég eitthvað betri en aðrir bara af því ég blogga? Meiningarlítið bloggsnakk á sér svosem stað líka. Líta ekki margir niður á bloggið? Er ég ekki að verða eins og þeir bloggarar sem á sínum tíma litu niður á Moggabloggið og töluðu mjög illa um það?
Æ, tölum um eitthvað annað. Þetta er svo deprimerandi. Auðvitað vona ég alltaf innst inni að eldgosið gleypi sem flesta og valdi sem mestum vandræðum. Kötlugos komi og spúi eldi og eimyrju yfir heimsbyggðina. Sjálfur muni ég þó lifa af með mestu harmkvælum. En þetta vill maður helst ekki viðurkenna. Þykist voða góður og hugsunarsamur. Gagnrýnir í mesta lagi málfar og hlær að mestu vitleysunum í fjölmiðlungum og þingmönnum. Bloggi og fésbók líka.
Hmm. Er eitthvað skárra að tala um þetta? Varla finnst öðrum það. Langar stundum á hátíðlegustu augnablikum, þar sem margir eru viðstaddir, að gera eitthvað alveg útúr kú. Hrækja á einhvern viðstaddra eða stökkva fram og æpa og góla eitthvað óskiljanlegt. En svona er þetta. Ef maður gerði alltaf strax það sem manni dettur í hug væri margt öðru vísi en það er.
Heyrði umfjöllun um Jóhannes úr Kötlum í Kiljunni. Man vel eftir Jóhannesi. Virðulegur eldri maður. Sat stundum yfir okkur krökkunum í prófum. Hef lesið eftir hann grein um veruna á Kili. Fannst meira til um þá grein en mörg ljóða hans. Heyrði á sínum tíma Sóleyjarkvæði sungið og það hafði meiri áhrif á mína pólitísku hugsun en flest annað.
Á minni tölvu koma þegar farið er á Netið Yahoo-fréttir sjálfkrafa upp og undanfarið hef ég lesið þar dálítið um ástandið í Thailandi. Enginn vafi er á því í mínum huga að þar eru merkilegir hlutir að gerast sem hæglega geta haft heimssögulega þýðingu. Þar gæti komið til borgarastyrjaldar þrátt fyrir að friðsamara fólk en Thailendingar sé vandfundið.
Þó það sé auðvitað óttalegt svindl þá er ég að hugsa um að setja myndir strax aftur. Það er bara komið vor og svo margt myndefnið.
Hér er sprænt uppí loftið af mikilli tilfinningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)