1004 - Stjórnlagaþing

Svolítið er byrjað að ræða aftur um stjórnlagaþing. Vel hefði verið hægt að kjósa til þess samhliða komandi kosningum til sveitarstjórna og einu sinni var talað um að svo yrði. Það rætist þó ekki því búið er svæfa málið. 

Í mínum augum lítur þetta einfaldlega þannig út að Alþingi hefur ákveðið að slíkt þing verði ekki haldið enda mundi það draga úr völdum þess. Þjóðin getur að vísu sent þingmenn alla sem einn í langt og verðskuldað frí en vandséð er hvernig slíkt verður framkvæmt. Trausts njóta þeir ekki.

Í orði kveðnu fallast margir þingmenn á að stjórnarskráin sé meingölluð og jafnvel að eðlilegt væri við núverandi aðstæður að halda stjórnlagaþing til að búa til nýja. Þegar á hólminn er komið er þeim samt alveg ósárt um að málið haldi áfram að dragast eins og það hefur gert lengi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslans hefur haft orð á því að stjórnlagaþing þurfi að halda. Ekki hef ég samt trú á að hann geti boðað til slíks uppá sitt eindæmi. Það er þó ef til vill hugmynd sem ræða mætti. Mun líklegra er að einn maður geti komið slíku á en 63ja manna þing sem aldrei getur komið sér saman um neitt. Er eins og kattahjörð sem engin leið er að stjórna.

Áhætta Ólafs Ragnars er sú að í nýrri stjórnarskrá verði hlutverk hans ekkert. Líka getur verið að í nýrri slíkri fái þjóðkjörinn forseti aukin völd. Ekki er samt víst að Ólafur fengi þau völd. Hann verður varla kosinn oftar til að gegna þessu embætti. Um þetta allt saman má fabúlera og brjóta heilann endalaust.

Gaman er að sjá hve vel Steve Davis gengur í snókernum þessa dagana. Núorðið er það samt Ronnie O´Sullivan sem er minn uppáhalds-snókerspilari. Já, það eru ótrúlegustu íþróttagreinar sem ég fylgist með. Vorkenni þeim sem eru þeirrar skoðunar að engin íþróttagrein sé til nema fótbolti. Að flestum íþróttagreinum má hafa eitthvert gaman svo lengi sem maður skilur reglurnar sæmilega. Hef hvorki náð að skilja almennilega reglurnar í ameríska hornaboltanum eða enska krikketinu og þykir þessvegna lítið til þeirra íþróttagreina koma.


Bloggfærslur 28. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband