1003 - Intelligent design

Horfði á heimildarmynd í sjónvarpinu um búddískan munk sem settist að hér á Íslandi. Áhugavert efni. Hef heyrt að aðstandendur myndarinnar hafi verið í stökustu vandræðum með hvernig klippa ætti efnið saman eftir að hafa safnað í mörg ár. Klippingin var að vísu óttalega skrýtin en gekk þó að mestu upp.

Hef líka verið að lesa pælingar Kristins Theódórssonar um Mofa og margt sem tilheyrir þrætunum varðandi þróunarkenninguna og „intelligent design". Verð að viðurkenna að mér finnst Mofi fara mjög halloka í þeim deilum.

Skelfingar vinalæti eru þetta á Facebook. Það eru bara allir að verða vinir allra. Gott ef ég er ekki að dragast aftur úr eftir ágæta byrjun. Held samt að það sé betra að safna frímerkjum en fésbókarvinum.

Hinsvegar er bloggið mitt að verða samsafn af „one-liners. (eða few-liners a.m.k.)" Kannski á þetta betur heima á Facebook án þess að ég fatti það. Finnst ég ekki geta lagt það á fésbókarvini mína að fá þetta allt í hausinn fyrirvaralaust. Þannig skilst mér  nefnilega að þetta virki en auðvitað getur það verið tómur misskilningur. Líklega get ég stillt fésbókina þannig að eingöngu birtist þar það sem ég hef áhuga á.

Hef alltaf verið skíthræddur við stjórnborðið á Moggablogginu. Gunnar Helgi frændi minn á Topplistanum setti hausmyndina á það fyrir löngu (þar er nefnilega mynd af pabba hans) en ég hef alltaf verið afar íhaldssamur á útlit þess að öðru leyti. Tölusetningin á bloggfærslunum er mögnuð uppfinning hjá mér og ég reikna með að halda henni áram þó nú fari fjögur stafabil í þetta og  stytti með því þann hluta fyrirsagnarinnar sem kemst fyrir á blogg.gáttinni.

Helga Haraldsdóttir fyrrum sunddrottning sagði mér einhvern tíma að hún hefði stundað það þegar hún var að skemmta sér í miðbænum í Reykjavík og átti heima útá Kársnesi í Kópavoginum að synda yfir Fossvoginn á heimleiðinni. Einhverntíma brá henni illilega þegar yrt var á hana þar sem hún var á sundi og átti sér einskis ills von. Þar var þá lögreglan komin á bát til að fylgjast með þessari brjáluðu konu.


Bloggfærslur 27. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband