988 - Ekki um skýrsluna góðu

Nú um stundir geri ég ráð fyrir að flestir skrifi sem mest þeir mega um skýrslufjárann sem væntanlegur er á morgun, mánudag. Mér þykir aftur á móti hlýða að reyna að skrifa um eitthvað allt annað. Pólitíkin er samt svo dómínerandi í samfélaginu (bloggsamfélaginu??) að erfitt er að forðast hana alveg.

Atburðirnir í Thailandi minna mig óþægilega á það sem á hefur gengið hér heima. Af einhverjum ástæðum fylgist ég betur með því sem þar er að gerast en því sem á gengur víða annars staðar. Jú, ég hef að sjálfsögðu fylgst með fréttum af hinu sorglega flugslysi þar sem forseti Póllands fórst ásamt öðrum og votta Pólverjum öllum að sjálfsögðu samúð mína.

Margir hafa leitast við að túlka úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem hér var haldin í byrjun mars eftir sínu höfði. Jú, ég get fallist á að í henni hafi falist visst vantraust á ríkisstjórnina. Ekki get ég þó séð að hún þurfi að víkja þess vegna. Heldur ekki að þjóðin hafi samþykkt einhverja ákveðna skoðun varðandi Icesave umfram það að hafna lögunum frá í desember. Þetta Icesave mál er einfaldlega þannig vaxið að búast má við að það hangi yfir okkur árum saman en hverfi ekki og hvort þjóðaratkvæðagreiðslan hafi flýtt fyrir lausn þess er í besta falli umdeilanlegt.

Jón Steinar Ragnarsson segir í athugasemdum hjá mér að endurminningar séu vel þegið bloggefni hjá mörgum. Þarna er ég sammála honum og hef stundum reynt að taka hann til fyrirmyndar í því en gallinn er sá að það er ansi tímafrekt að koma viti í þannig efni. Hef reynt að tína endurminningarkafla úr mínum bloggum og setja saman í eitt skjal en það er ákaflega sundurlaust. Einu sinni þegar ég var að byrja að blogga var ég svo stoltur af bloggunum mínum að ég prentaði þau út og setti í möppu en er löngu hættur því.

Sæmundarháttur í bloggi snýst um sjálfhverfu bloggara. Meðan flestir eru ánægðir með að nota bloggið til að koma skoðunum sínum á mönnum og málefnum á framfæri eru aðrir haldnir sæmundarhætti og vilja fyrir hvern mun skrifa um bloggið sjálft og hvernig eigi að blogga og í sinni verstu mynd er þessi sjúkdómur þannig að menn geta ekki um annað skrifað.


Bloggfærslur 12. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband