987 - Rifrildi í athugasemdum

Steini Briem og Gísli Ásgeirsson lentu í rifrildi á blogginu mínu um daginn. Það byrjaði með því að Gísli gagnrýndi vísurnar hans Steina harkalega og Steini tók því ekki þegjandi. Annars hafa þeir báðir sér til ágætis nokkuð. Bloggið hans Gísla á malbein.is les ég oft og þykir með þeim allra bestu. Líka er bróðir hans Páll Ásgeir úrvalsbloggari, en er alltaf að hætta og byrja aftur. Báðir eru þeir útivistarmenn og fjallagarpar miklir og Páll hefur skrifað margar bækur um slík mál. Gísli er hinsvegar bæði langhlaupari, þýðandi og spurninganörd hinn mesti. Fyrrverandi kennari.

Gísli orti (að ég held) á sínum tíma fyrir hönd Más Högnasonar hér á Moggabloggið en er hættur því. Mörgum þótti hann full níðskældinn og alvörulaus. Yrkja jafnvel um atburði sem ekki ætti að yrkja um, hvað þá í hálfkæringi eins og Már köttur gerði gjarnan. Annars er meiri saga af Má Högnasyni en bara vísurnar. Fer samt ekki útí það hér. Mér þótti hann (og Gísli) um of á móti Moggabloggurum og setja þá alla undir sama hatt.

Á sínum tíma var það sameiginlegt einkenni flestra sem höfðu bloggað áður en Moggabloggið kom til sögunnar að finna því allt til foráttu. Þar held ég að þjóðmálapólitík hafi ekki ráðið heldur bloggpólitík. Nefni bara nafn Stefáns Pálssonar og þá vita líklega margir hvað ég á við.

Tískustraumar koma og fara í tölvuheimum eins og annars staðar. Einu sinni var irc-ið í tísku, tölvupóstur, msn, blogg, myspace, facebook o.s.frv. Sumir stöðvast í einhverju ákveðnu en aðrir eru sífellt að leita að einhverju nýju og eru aldrei ánægðir. Hvert nýtt trend ber jafnan í sér svolítinn hluta þeirra eldri og bætir einhverju nýju við.

Fésbókin finnst mörgum vera heillandi núna og vel kann svo að vera. Sé samt ekki betur en bloggið henti mér ágætlega, einkum vegna blogg-gáttarinnar þó satt að segja séu þeir orðnir ansi margir sem þar eru skráðir. RSS straumar hjálpa líka mikið þó margir (þar á meðal ég) viti varla um hvað þeir snúast. Samstarf milli bloggveitna mætti vera mun betra. Það sem ég hef einkum á móti fésbókinni er að þar skuli eitt fyrirtæki ráða öllu en auðvitað er hægt að vera þar og blogga eins og vitlaus maður líka.

Mitt helsta boðorð í bloggskrifum er að hafa hvert blogg ekki óhóflega langt. Svona eins og langa athugasemd. Það er þýðingarlaust að láta móðann mása endalaust og skrifa bara eitthvað. Enginn nennir að lesa slíkt svo nú er ég hættur.


Bloggfærslur 11. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband