986 - Maggi mix

Jæja, ég held þá bara mínu striki og læt vaða á súðum. Þegar ég vaknaði seint og um síðir sá ég að komnar voru einar tíu athugasemdir við skrif mín í gær. Þetta er óvenjulegt og sló mig eiginlega alveg útaf laginu. Var einmitt að velta fyrir mér hvernig ég gæti byrjað á næsta bloggi. Nú er það vandamál leyst. Sníkjubloggarar allra landa sameinist og mætið hér. 

Sá líka umfjöllunina um Magga Mix í kastljósinu í gærkvöldi. Er hann að stæla mig eða ég hann? Þarna er ég að vísa í hafragrautarskrifin ef einhver skyldi vera of tornæmur til að skilja það. Svo er heldur ekki víst að allir sem hingað koma þekki deili á Magga Mix. Mér skilst að hann sé aðallega á fésbókinni og vinsæll mjög.

Kristinn Theódórsson skrifar um hræsnina í Jóni Val Jenssyni og ég hef engu við það að bæta. Er bara sammála honum. Er líka hugsi útaf því að ég sé ekki að Agnes Bragadóttir hafi svarað aðal-lögfræðingnum sjálfum sem hjólaði í hana um daginn og sagði hana lygakvendi eða eitthvað þessháttar. Kannski hefur svar Agnesar bara farið framhjá mér.

Það er ekki hægt að búa til verðmæti úr loftinu og hinn fríi hádegisverður er ekki til segja frjálshyggjumenn gjarnan. Það var einmitt frjálshyggjan sem fór svona með okkur eins og allir eru uppteknir af. Siðferðisviðmiðin fuku út í buskann, ekki bara hjá útrásarvíkingunum heldur almennt í þjóðfélaginu. Vinstri sinnuð viðhorf eru vinsælli nú um stundir en var á tímum ofsagróðans. Öllu má samt ofgera og reglugerðir og fyrirmæli stjórnvalda um allt mögulegt eru verkfæri andskotans og koma óorði á vinstrið. Valdhroki getur komið þeim í koll sem honum beita. Já, ég er að tala um dóttur hans Inga R. Hún má vara sig.

Það áhugaverðasta og það sem mest nýnæmi er að í erlendum fréttum þessa dagana er það sem er að gerast í Thailandi. Þar er í gangi einskonar búsáhaldabylting þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin segi af sér. Ástandið þar er sífellt að verða einkennilegra og einkennilegra.


Bloggfærslur 10. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband