953 - Hrunskýrslan

Jæja, þá er hægt að hætta að rífast um það og snúa sér að einhverju öðru. Það er ekki eins og Icesave sé það eina sem hrjáir okkur Íslendinga. Það er ágætt að vita það að svona hugsar þjóðin. Sameiginlega er hún miklu gáfaðri en hver og einn, jafnvel þó fábjánar séu einhverjir. Veit samt ekki hvort Þráinn Bertelsson hefur kosið. Skiptir það annars einhverju máli?

Nú mun ESB-umræða taka við af Icesave. Vel getur verið að í millitíðinni verði kosið til Alþingis. Þær kosningar munu þá umfram flest annað snúast um aðildina að ESB. Galli er hve ESB-umræður verða fljótt illvígar. Mönnum hættir til að vera alltof stórorðir og árásargjarnir. Andstæðingum aðildar hættir til að nota tækifærið og hræra líka í öðrum málum með óþarfa bægslagangi og þjóðremban ríður stundum ekki við einteyming. Þarmeð hætta andstæðingar þeirra að taka mark á þeim.

Það sem ég hef til þessara mála að leggja er að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að okkur beri að ganga í Evrópusambandið. Hef fylgst með og tekið þátt í þeirri umræðu sem verið hefur um þetta mál allar götur frá því að ég var í Danmörku haustið 1972 þegar Danir samþykktu að ganga í Evrópusambandið og Jens Otto Krag sagði af sér. Hinsvegar liggur okkur ekkert á. Höfum beðið svo lengi að okkur munar ekki um nokkur ár í viðbót.

Fyrr en varir verður líka rætt mikið um hrunskýrsluna miklu hvort sem hún verður einhverntíma lögð fram eða ekki. Já, það vantar ekki stórmálin í pólitíkina nú um stundir. Best verður þó að vera stikkfrí og skrifa um eitthvað annað.

Gáfumaður Guð var ei
gafst hann upp á rólunum.
Krakka setti í Mæju mey
sem minnst er nú á jólunum.

Þetta er bara ómerkilegur samsetningur til að æsa menn upp ef vera skyldi að þetta væri áhugamál einhvers sem þetta les. Einskonar Múhammeðsmynd.


Bloggfærslur 8. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband