950 - Af hverju er Ísbjörg Kjartansdóttir?

Ætli ég haldi ekki áfram að skrifa um Icesave og þess háttar vitleysu fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Finnst samt meira gaman að skrifa um annað og held að lesendur mínir kynnu betur að meta það. 

Það sem ég vildi sagt hafa er að líklega semja Bretar og Hollendingar við okkur á síðustu stundu eða þeir semja alls ekki. Með því að semja nú geta þeir haft áhrif á atkvæðagreiðsluna. Auðvitað er ekki að vita hver þau áhrif verða en að henni lokinni hafa þeir enga ástæðu til að flýta sér að semja.

Samninganefndin sem nú er í Bretlandi er alls ekki samninganefnd ríkisins heldur allra þingflokkanna. Ekki er þó að sjá að Sigmundur Davíð vilji semja en hugsanlega Bjarni Ben. Ég er alveg andvígur SDG í því að samningsleysi er mun verra en samningur. Þetta mál verður ekki leyst öðruvísi. Hægt er að rövla og rífast um lagaflækjur og þess háttar út í það óendanlega.

Vonandi verður næsta þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað áþreifanlegra. Til dæmis um kvótann eða hvort efna skuli til stjórnlagaþings og þá hvenær og hvernig. Með nýrri stjórnarskrá yrði væntanlega gengið af núverandi flokkaskipan dauðri. Er það ekki einmitt það sem flestir vilja?

Réttast væri að halda stjórnlagaþing fljótlega. Slík þing voru síðast í tísku þegar einveldi konunga leið undir lok og lýðræði tók við. Lýðræði það sem við Íslendingar höfum búið við að undanförnu hefur reynst stórlega gallað og stjórnarskrá sú sem við höfum haft lengi er í raun ekki annað en plagg sem Danir hentu í okkur á sínum tíma og að flestu leyti afrit af þeirra eigin stjórnarskrá.


Bloggfærslur 5. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband