949 - Icesave enn og aftur

Enn styttist í þjóðaratkvæðagreiðsluna og mér sýnist þeim fjölga sem telja að af henni verði. Henni verði semsagt hvorki aflýst né frestað. Fólk stendur þá frammi fyrir því vali hvort það á greiða atkvæði eða ekki. Kjörsókn verður eflaust túlkuð af sumum sem dómur um það hve margir vilja aukið lýðræði. Kosningin sem slík er að verða æ marklausari. 

Þegar á kjörstað er komið og atkvæðaseðillinn í hendi eru möguleikarnir vissulega fleiri en að krossa við „já" eða „nei". Vel er hægt að gera atkvæðið ógilt til dæmis með því að merkja bæði við „já" og „nei". Líka er auðvitað hægt að skila auðu. Venja er við Alþingiskosningar að telja auð atkvæði og ógild saman og oftast er það lítill hluti greiddra atkvæða.

Svo þarf þó alls ekki að vera. Vel er hægt að hugsa sér að slík atkvæði verði nokkuð mörg og það að skila auðu þarf alls ekki að hafa sömu merkingu og að gera atkvæðið ógilt. Að mæta á kjörstað og vera talinn með í kjörsókn er „statement". Með því að mæta á kjörstað finnst mér fólk vera að segja að það vilji gjarnan taka þátt. Ef því hugnast hvorki „já-ið" eða „nei-ið" er opin leið að gera atkvæðið ógilt eða skila auðu.

Eins og nú standa sakir er ekki annað að sjá en ríkisstjórnin vilji nota atkvæðagreiðsluna eftir því sem hægt er í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga. Úr því sem komið er finnst mér ekkert athugavert við það. Sigri neitarar eins og allt bendir til gæti það auðvitað leitt til öngþveitis hér á landi en ég er alls ekki trúaður á það. Að slíkt komi hugsanlega af stað einhverri keðjuverkun og alheimsbyltingu finnst mér vera algjör fjarstæða.


Bloggfærslur 4. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband