975 - Hinn skrifandi maður (veit ekki hvernig það er á latínu)

Það hentar mér ágætlega að blogga. Þegar blogg-greinar mínar eru farnar út í eterinn missi ég áhugann á þeim. Ef ég væri að skrifa eitthvað annað og varanlegra mundi ég aldrei geta hætt að snyrta og snurfusa. 

Reyni samt alltaf að vanda blogg-greinar mínar dálítið og lesa þær yfir. Sama verður ekki sagt um kommentin. Þau eru nær alltaf samin á svipstundu og send upp eins og skot. Vísurnr tekur þó oft nokkra stund að semja.

Sumir vanda sig ekki nærri nógu mikið við bloggskrifin og láta allskyns hroða frá sér fara þó þeir hafi frá nógu að segja. Aðrir hafa bara alls ekkert að segja en skrifa þó. Reyni að falla í hvorugan flokkinn.

Margir hafa horn í síðu bloggsins yfirleitt og þeir sem blogguðu áður en Moggabloggið kom til sögunnar reyna oft að telja sjálfum sér og öðrum trú um að það hafi spillt blogginu.

Jú, það eru langtum fleiri sem blogga núorðið og líka margir sem fésbóka sig sem mest þeir mega. Auglýsingakeimurinn af Facebook fælir mig frá henni. Þeir eru samt margir sem þar eru skráðir án þess að taka teljandi þátt í því húllumhæi sem þar ríður húsum.

Best er auðvitað að skrifa ekki neitt. Lesa bara og láta samskiptin í kjötheimum nægja. Netið býður uppá alveg nýja tegund af samskiptum ef menn kæra sig um.

Ég hef oft velt fyrir mér að gerast persónulegri í mínum bloggskrifum. Skrifa meira um það sem fyrir mig kemur daglega og fílósófera svolítið um það. Ég er óvanur því og ef ég færi úti það þyrfti ég að taka tillit til svo margra. Eins og nú er þarf ég lítið tillit að taka til annarra. Það mundi eflaust breytast ef ég yrði persónulegri. Sjáum til og svo er aldrei að vita nema ég skrái mig einn daginn á bókar-fésið.


Bloggfærslur 30. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband