974 - Framboð og fleira

Þetta sem útrásarvíkingarnir gerðu er ekkert annað en það sem fjárglæframenn allra tíma hafa stundað stíft. Taka lán til að borga eldri lán. Kaupa sem mest af fyrirtækjum og snúa á Skattmann. Þykjast vera ofsaklárir og láta ekkert koma sér á óvart. Elsta brellan í bókinni. Það sem þeim tókst að svikja út var risavaxið á okkar mælikvarða af því að þeim voru gefnir allir helstu bankar landsins.

Þessu var svo jafnað niður  á sauðsvartan almúgann með skattlagningu. Fáir mögla því Íslendingar eru svo vanir óhæfum stjórnendum að þeim finnst þetta bara eðlilegt.

Annars er ég hættur að botna í þessum ósköpum og er að hugsa um að taka þessu bara með ró. Best er að eiga aldrei neina peninga eða eyða þeim að minnsta kosti jafnóðum. Sparnaður er blekking. Þetta lærði ég á sparimerkjatímanum í barnaskóla. „Græddur er geymdur eyrir," var þá sagt og kváðu við hrossahlátrar úr öllum áttum.

Í alvöru talað. Annað hvort er að vera útrásarvíkingur og éta gull eða lepja bara dauðann úr skel. Þetta bjargast allt einhvern veginn.

Eins og ég skil íslensku þjóðarsálina þá þyrstir hana í réttlæti. Bankahrunið hefur farið illa með sálarlíf margra. Aldrei verður hægt að draga alla þá til ábyrgðar sem það ættu skilið og einhverjir verða ranglega dæmdir. Það breytir því ekki að óhóflega lengi hefur dregist að hefjast handa við hefndaraðgerðir. Þær þurfa ekki að vera merkilegar en eru nauðsynlegar samt.

Hverfafundir eru fundir sem hverfa. Það er að segja framboðsfundir. Einu sinni voru framboðsfundir skemmtilegir. Man eftir einum slíkum á Hótelinu í Hveragerði. Þá var Unnar Stefánsson (pabbi Kristjáns Más fréttamanns) með bindið fast á öxlinni í framboði fyrir Alþýðuflokkinn á Suðurlandi og sá eini sem ég þekkti af frambjóðendunum sem á fundinum voru.

Pólitískt ber það hæst núna að Samfylkingin hefur kastað stríðshanskanum. Kvótagreifarnir verða hundeltir því þjóðin er alfarið á móti sölu óveidds fisks og íslenskt þjóðlíf er á hraðri leið til aukins réttlætis. Atkvæðin eru hjá þeim sem óánægðir eru með kvótakerfið og á þau mið ber að róa. Icesave-málið er löngu tapað og ekki seinna vænna að snúa sér að atkvæðaskapandi verkefnum.

Nú er óhjákvæmilegt að beygja svolítið til vinstri og ná óánægjuliðinu sem Ömma fylgir aftur um borð. Upplagt væri að henda Icesave-málinu eins og það leggur sig í hausinn á Sigmundi Davíð og Bjarna Ben.


Bloggfærslur 29. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband