973 - Icesave og ESB

Munurinn á Icesave og ESB er talsverður. Aðallega í því að annað snýr að fortíðinni en hitt að framtíðinni.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á Icesave. Trúað því til dæmis að þetta sé bara einfalt kröfuréttarmál þar sem skorið yrði úr um úrslitin af þar til bærum dómstólum ef báðir aðilar málsins fengjust til að fallast á það.

Fyrir stuttu gerði ég hér á blogginu grein fyrir skoðunum mínum á þessu máli. Ekki ætla ég að endurtaka þær enda voru viðbrögðin við stuttri grein minni satt að segja öfgafull.

ESB-málið snýst hins vegar aðallega um hvernig menn gera ráð fyrir að þróun mála þar verði næstu áratugina. Margir virðast trúa því að ESB muni þróast í átt til stórríkis og það sé Íslendingum alls ekki til ávinnings að ganga í það.

Í rauninni hafa menn ekki við annað að styðjast í þessu efni en eigin spádómsgáfu. Þróunin getur orðið með ýmsu móti. Hald sumra er að reikna megi út í beinhörðum peningum hvort borgi sig að ganga í sambandið. Svo er alls ekki.

Síðast en ekki síst eru það þjóðernisrökin. Ég geri alls ekki lítið úr þeim rökum að verið sé að fórna hluta af sjálfstæði landsins ef af inngöngu verður. Spurningin er bara hvort sjálfstæði okkar að þessu leyti sé svo miklu dýrmætara en annarra og hættan samfara smæð okkar svo mikil að þjóðerninu sé hætta búin.

Svo virðist ekki vera því þróun mála innan ESB hefur hingað til öll verið í þá átt að auka hagnaðinn af því að vera memm. Markaðurinn er stór og mikils virði að fá sama aðgang að honum og aðrir.  

Ég geri ráð fyrir að alls ekki séu allir sammála mér um þetta. Óralöng innlegg um hið gagnstæða munu ekki sannfæra mig um neitt annað en að þeir sem að þeim standa séu að reyna að kæfa með þeim umræðu sem þeim er á móti skapi.

Mér leiðast svarhalar sem eru óhóflega langir og það er alls ekki víst að ég muni svara þeim sem kommenta á þessa færslu.


Bloggfærslur 28. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband