972 - Um Moggabloggið

Einhver sem skrifar á vef sem kallaður er „Escape.is" segir: 

Það hefur oft verið rætt í mínum bakgarði um blogg þjónustu mbl.is og áhrifin sem hún hefur haft á blogg kúltúr Íslands. Umræðan er oft á þann veginn að "moggabloggið hafi komið óorði á bloggið". Breytingar á blogg venjum fólks eiga sér eflaust flóknari útskýringar (m.a. tilkoma Facebook) en það er einn punktur sem mig langar að draga fram.

Blogg þjónusta mbl.is er að stórum hluta kommentakerfi á fréttir mbl.is. Til þess að geta kommentað á fréttir á mbl.is þá þurfa notendur að skrá blogg. Með þessari kröfu varð til nýr hópur af bloggurum. Fjöldi fólks sem aldrei hefði annars haft frumkvæði fyrir því að stofna og viðhalda bloggi.

Ég ætla ekki að fara í djúpar vangaveltur um hvað telst blogg og hvað ekki. Ég veit þó að komment eru ekki bloggfærslur.

Þetta er greinilega einn af þeim sem finnst ekki nógu erfitt að blogga á Moggablogginu og að bloggarar séu orðnir alltof margir. Ég hef áður skrifað um slíkt fólk og ætla ekki að endurtaka mitt álit á því. Belgingurinn er þó oft hlægilegur. Það er að vísu alveg rétt að athugasemdir við fréttaklausur eru ekki blogg en ég sé ekki að það skaði neinn þó þær séu taldar þannig eins og mbl.is gerir.

Eftirfarandi segir Jens Guð á sínu bloggi:

Það er einhver svakalega mikill spenningur í loftinu vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök bankahrunsins.  Það er eins og fólk haldi að í skýrslunni sé eitthvað upplýsandi;  að loksins komi sannleikurinn í ljós.  Ég get fullvissað ykkur um að því fer víðs fjarri.  Það mun nákvæmlega ekkert markvert koma í ljós í þessari skýrslu.  Allt orðalag verður almenns eðlis í loðnum getgátustíl.  Ábyrgð verður ekki vísað á einn né neinn.  Þetta verða aðeins margtuggnar klisjur um að eftirlitsstofnanir hafi brugðist,  menn hafi ekki gætt að sér,  betur hefði farið ef hlustað hefði verið á gagnrýnisraddir,  umsvif bankanna hafi orðið of stór fyrir íslenska hagkerfið,  viðvörunarbjöllur hafi verið farnar að hringja og eitthvað í þeim dúr.  Sannið til.  Skýrslan verður máttlaust plagg,  hvítbók.

Ég er sammála Jens um þetta en bind þó vonir við að margir taki mark á þessari skýrslu og hún verði ekki alveg gagnslaus. Alltof lengi hefur þó verið beðið eftir henni og talað um hana. Alltof oft hefur útkomu hennar verið frestað og alltof miklar vonir eru bundnar við hana til þess að nokkur von sé til þess að hún standi undir væntingum.


Bloggfærslur 27. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband