971 - Eldgos og fornrit

Það er gaman að fylgjast með frásögnum af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Sérstaklega finnst mér gaman að fylgjast með Kristjáni Má Unnarssyni því hann er svo æstur og óðamála. 

Ég komst ansi nálægt gosinu sem varð í Skjólkvíum árið 1970 og kannast við margt af því sem Kristján er að lýsa. Hraunfossinn niður í gilið er samt extra. Slíkt var ekki í boði í Skjólkvíum.

Margt bendir til að enn sé þetta sannkallað túristagos. Ef Katla fer að bæra á sér er því lokið. Hana verður að taka alvarlega.

Myndirnar sem sýndar eru í sjónvarpinu af gosinu eru frábærar. Myndir reyndi ég að taka árið 1970 en tæknin var ekki á sama stigi þá. Ég reyndi að fara að Heklu þegar hún gaus í janúar árið 1991 en þá var ekki mikið að sjá. Bílafjöldinn samt mikill og myrkrið enn meira.

Fornrit komu til tals í kommentum hjá mér fyrir nokkru. Þeim Íslendingum fer kannski fækkandi sem lesið hafa Íslendingasögurnar. Ég hef lesið þær flestar og finnst þær afar misjafnar að gæðum. Allt frá því að vera hreinustu listaverk og í að vera endemis þvættingur.

Fjórar finnst mér bestar og eru þær þessar: (Ekki þó í neinni sérstakri röð.)

Njála. (Brennu-Njáls saga). Besta skáldsagan.
Laxdæla. Besta ættarsagan.
Eyrbyggja. Hefur allt.
Hrafnkatla. (Hrafnkels saga Freysgoða). Besta smásagan.

Af þessu má skilja að ég hafi engan sérstakan áhuga á Grettissögu, Egils sögu, Gísla sögu Súrssonar eða Fóstbræðrasögu. Hef ekki einu sinni reynt að lesa Gerplu Kiljans enda er ég enginn sérlegur aðdáandi hans. Hann hefur verið alltof fyrirferðarmikill í íslenskri bókmenntasögu tuttugustu aldar.


Bloggfærslur 26. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband