967 - Svo er það Icesave

Undarlegt er það að í umræðum um Icesave hafa menn deilt mikið um lagaleg álitamál og allt mögulegt annað. Þó minnast menn afar sjaldan á það sem mér finnst skipta langmestu máli í þessu sambandi öllu. 

Auðvitað er ekki öruggt að minn skilningur sé 100 % réttur. Fyrir mér er hann það þó og trú mín er sú að svo sé einnig um dómara við flesta dómstóla sem hugsanlegt er að mundu taka þessi mál til meðferðar. Samt eru vissulega til þeir lögfræðingar sem reyna að rugla þessi mál öll og koma því inn hjá fólki að hægt sé að sleppa við að borga Icesave-reikningana.

Á sínum tíma var það tilkynnt af íslenskum stjórnvöldum að allar innistæður í íslenskum bönkum væru tryggðar að fullu af ríkinu. Ekki veit ég annað en við það hafi verið staðið og enga hef ég heyrt halda því fram í alvöru að hætta eigi við þetta afturvirkt og að það sé hægt. Samt virðist meining margra hafa verið að þetta loforð hafi bara átt að gilda gagnvart Íslendingum en ekki útlendingum. Þannig er bara ekki hægt að haga sér meðal siðmenntaðs fólks.

Útlendingar eru ekkert síður verndaðir af mannréttindaákvæðum en Íslendingar. Íslendingar hafa lofað hátíðlega að gera ekki upp á milli manna á þennan hátt eftir þjóðerni. Eru slík loforð bara einskis virði? Á að ganga á bak orða sinna? Bara af því að það er ódýrara?

Nei, það er skárra að vera uppréttur og standa við sín orð en að tapa sér í sjálfsánægju og grobbi. Icesave-andstæðingar tala mikið um að hvergi komi fram í regluverki frá ESB að ríkisábyrgð eigi að vera á tryggingarsjóðum bankainnistæðna. Mér vitanlega hefur enginn talað um að svo sé. Þetta eru dæmigerðar strámanna-árásir og ekkert annað.


Bloggfærslur 22. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband