959 - Orðræða

Bloggorðræðan er ákaflega óvægin og grimmdarleg. Varla finnast í málinu nógu stór og ljót orð til að nota þar. Ekki nóg með að orðin séu ljót, hugsunin er ljót líka. Svotil allir eru réttdræpir fábjánar. Undantekningar eru frá þessu en þær eru ekki margar. Þessi bloggorðræða tengist vissulega hruninu og hefur versnað stórlega eftir það. Hún er farin að smitast á dagblöðin. Einkum DV og Morgunblaðið. Veit ekki með Fréttablaðið því ég sé það svo sjaldan. Sjónvarps og útvarpsfréttir eru sæmilega vitrænar ennþá en eru smám saman að versna.

Allt stefnir í Landsdóm. Þá fá nú einhverjir tækifæri til að brillera. Er það Alþingi sem hefur farið svona með orðræðuna? Kannski. Hún hefur versnað eftir að farið var að sjónvarpa beint þaðan.

„Farðu í rass og rófu. Ríddu grárri tófu," var áður fyrr oft sagt við þá sem uppáþrengjandi voru og fyrir. Ekki veit ég hvað þetta átti að fyrirstilla og ekki veit ég hvers konar reið þetta átti að vera. Líklega hestareið, þorði aldrei að reikna með öðru.

Mér finnst margt benda til þess að ríkisstjórnin, Alþingismenn, útrásarvíkingar og aðrir sem við kjötkatlana sitja séu orðnir viðskila við þjóð sína. Segja má að það hafi komið í ljós í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski verður það enn ljósara eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor eða í síðasta lagi eftir næstu Alþingiskosningar.

Sagt er að bara bloggarar lesi blogg. Sumir eru kannski óvirkir en gætu hvenær sem er farið til þess arna. Suma bloggara les ég aldrei, mér til mikillar ánægju og þeim til skaða ímynda ég mér. Ég er löngu hættur að lesa dagblöð því mér finnst svo gaman að lesa blogg (eða lesa þau ekki) Miklu skemmtilegra er þó að skrifa blogg og ímynda sér að maður sé rosagáfaður. Vona bara að einhverntíma verði hætt að álíta bloggið svona asnalegt.

Undirfyrirsögn í Mogganum í dag laugardag: „Höfundar myndarinnar hittu mann sem stundar veiðar með Osama bin Laden." Lengra er ekki hægt að komast í því sem kaninn kallar „name dropping".


Bloggfærslur 14. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband