958 - Sjöundá

Var að enda við að lesa frásögn af Sjöundármorðunum í bók sem heitir „Syndir feðranna III" og er gefin út árið 1988 af bókaútgáfunni Hildi. Undirtitill bókarinnar er „Sagnir af gömlum myrkraverkum". 

Þetta er undarleg bók. Sagt er að Gunnar S. Þorleifsson hafi safnað frásögnunum saman. Höfunda er ekki getið og engin tilraun er gerð til að segja frá tilurð sagnanna eða um hvað þær fjalla eða frá hvaða tíma þær eru. Eftir efnisyfirliti fremst í bókinni að dæma eru frásagnirnar í bókinni tólf talsins og nöfn þeirra eru talin upp í yfirlitinu. Meira er ekki að hafa.

Gunnar Gunnarsson gerði morðin á Sjöundá ódauðleg í meistaraverki sínu „Svartfugli". Atburðirnir áttu sér stað í byrjun nítjándu aldar og víða er hægt að finna frásagnir af ódæðunum sjálfum og örlögum þeirra Bjarna Bjarnasonar og Steinunnar Sveinsdóttur.

Eiginmaður Steinunnar var drepinn af Bjarna og sömuleiðis kona Bjarna. Steinunn var með í ráðum og eggjaði til verkanna. Þetta játuðu þau skötuhjúin við yfirheyrslur en margt er það í rannsókn málsins sem nútímafólk hefði kosið að væri öðruvísi. Til dæmis er engar upplýsingar að finna um sálarástand morðingjanna og játningarnar virðast hafa verið fengnar fram með svikum og fláræði.

Frásögnin í þessari bók er allýtarleg og tekur nærri 80 blaðsíður (89 - 167) Höfundurinn er fjarri því að vera hlutlaus í þessari frásögn sinni og gerir á allan hátt hlut þeirra sem að málinu koma sem verstan. Hann er þó þokkalega hlutlaus þegar kemur að afbrotafólkinu sjálfu og fylgir örlögum þeirra nokkuð vel.

Steinunn Sveinsdóttir lést í tugthúsinu í Reykjavík (Stjórnarráðshúsinu) og var dysjuð fyrir utan bæinn á Skólavörðuholtinu þar sem síðar var kallað Steinkudys. Bjarni var hinsvegar fluttur til Noregs og tekinn af lífi þar.

Allt frá því að ég las í æsku bókina „Svartfugl" hafa atburðir þessir haft mikil áhrif á mig. Þeir lýsa þjóðlífi þessa tíma afar vel. Sá veruleiki sem þarna birtist er órafjarri nútímanum. Frásögnin í þessari bók er á margan hátt ágæt og fyllir vel upp í eyður sem í huga mér hafa verið um þetta mál. Þessvegna finnst mér það skaði að höfundar skuli ekki getið í bókinni.


Bloggfærslur 13. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband