944 - Hekla

Eins og kunnugt er gýs Hekla á 10 ára fresti núorðið. Í Skjólkvíagosinu svokallaða árið 1970 komst ég í nánari kynni við eldgos en nokkru sinni fyrr eða síðar. Í janúar árið 1991 fór ég uppí Landssveit til að fylgjast með gosinu sem þá var. Um það leyti gerðist einnig ýmislegt annað sem frásagnarvert er. Missti alveg af gosinu árið 2000 en kannski munu leiðir okkar Heklu skarast í næsta gosi. Veit samt ekki hvenær það verður og bíð ekkert í ofvæni. Man vel eftir að einu sinni var tilkynnt í útvarpi að gos myndi hefjast í Heklu eftir 15 mínútur. Ætli það hafi ekki verið árið 2000.

Á sínum tíma álpaðist ég til að ganga í framsóknarflokkinn til að hjálpa Bjarna frænda í prófkjöri. Síðan hef ég lítinn frið haft fyrir framsóknarmönnum. Nú dynja á mér SMS skilaboð og símtöl en hingað til hef ég bara fengið einhver tölvupóstskilaboð frá þeim og reikninga fyrir félagsgjaldi.

Svo er það framhald af sögunni sem sögð var í næstsíðasta bloggi.

Varla var hann kominn út þegar hann mundi allt í einu eftir því að hann hafði gleymt símanum sínum. Hann stoppaði samstundis og sneri við. Dró síðan hægt úr ferðinni og sneri aftur við.

„Nei, það hringir hvort eð er enginn í mig. Svo mundi mömmu þykja skrítið hvað ég er orðinn gleyminn. Sú held ég að færi í flækju ef síminn færi allt í einu að hringja."

Hann greikkaði sporið og talaði í hálfum hljóðum við sjálfan sig: „Nei, þetta gengur ekki. Nú er ég búinn að vera atvinnulaus í tvo mánuði og bráðum fara atvinnuleysisbæturnar að minnka. Hvað á ég þá að gera. Ekki get ég lifað á berstrípuðum bótunum."

„Djöfuls læti alltaf í kellingunni. Maður hefur bara engan frið. Næst gæti henni dottið í hug að æða inn í herbergið mitt."

Jakob snarstansaði. Nú datt honum svolítið í hug.

„Hvað ef hún njósnar nú um mig og fer alltaf inn í herbergið mitt þegar ég er ekki heima. Best væri náttúrulega að snúa við strax og athuga það."

Hann snarsneri við einu sinni enn og stikaði heim á leið.

Þegar að húsinu kom fór hann eins hljóðlega og hann gat og reif svo allt í einu upp hurðina og fór rakleiðis inn í herbergið sitt.

Auðvitað var enginn þar. „Asni gat ég verið. Nú passar hún sig áreiðanlega ennþá betur næst því þó hún segi ekki neitt þá veit hún áreiðanlega að ég var að reyna að ná henni í herberginu mínu. Fjandinn sjálfur."

-------

„Maturinn er tilbúinn."

„Ég vil engan helvítis mat."

„Nú, en klukkan er alveg að verða sjö."

„Það var ágætt. Þá eru sennilega komnar fréttir. Gott að þú minntir mig á það. Ég ætla ekkert að éta."

„Hvað á ég þá að gera við allar þessar pulsur?"

„Nú, eru pulsur? Kannski ég fái mér eina eða tvær."

„Á, var það ekki?"

(Jakob hámar í sig 10 pulsur á notime)

„Jæja, ætli fréttahelstið sé þá ekki búið."

Jakob notaði þetta orð alltaf í tíma og ótíma. Kunningi hans sagði honum nefnilega einu sinni að þetta orð væri notað yfir fyrirbrigðið hjá þeim sem ynnu við sjónvarpsstöðina.

Ætli þetta dugi ekki sem örsaga. Nenni þessu ekki lengur.


Bloggfærslur 27. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband