941 - Milestone

Ef það sem kom fram í Kastljósi í gær (22. febrúar) er rétt og þá er ég að tala um frásögnina af yfirheyrslunum yfir Milestone-mönnum þá er veruleikinn í kringum hrunið líklega miklu verri en ég hef hingað til haldið. Þessir menn voru greinilega komnir langt útfyrir það sem þeir réðu við. Hvernig í ósköpunum komust þeir þangað?

Ég skil vel þá sem hrópa á byltingu núna. Get bara ekki fallist á að hún mundi breyta neinu. Óhæfir menn geta alveg eins komist til valda með byltingu eins og með kosningum. Að kosningahegðun manna virðist ekki ætla að breytast meira en útlit er fyrir er óskiljanlegt. Ég sé ekki að flokkarnir sjálfir geti breyst svo mikið að stjórnmál hér á landi komist í námunda við almennt siðgæði.

Mig hefur lengi langað til að gera örsögur eins og hann Jens Guð. Hef bara ekki hugmyndaflug til þess. En drauma dreymir mig stundum og auðvitað er hægt að gera skrýtnar sögur úr þeim. Kannski Jens geri það einmitt. Fyrir nokkru tilkynnti hann að hann væri nánast hættur að blogga. Auðvitað getur hann ekkert hætt. Það geta engir sem blogga af einhverju viti. Sjáið bara Sigurð Þór. Alltaf er hann að reyna að hætta. Og svo er öðlingurinn hann Svanur Gísli kominn aftur á Moggabloggið, sveimérþá.

Sagt er að núverandi ríkisstjórn hér á Íslandi sé í rauninni minnihlutastjórn. Þetta má hæglega til sanns vegar færa. Icesave-andstaðan er svo megn að stjórn á flestu er í skötulíki. Svo er forsetinn á öndverðum meiði við stjórnina og þeir sem vanir eru að vera á móti honum styðja hann með því meiri krafti sem hann stríðir ríkisstjórninni meira. Samt er ástæðulaust að vorkenna stjórninni. Það á ekkert að vera auðvelt að stjórna.

Umræða um ofurhraðalinn í Sviss sem ég skrifaði svolítið um í gær hefur verið talsverð í dag. Ágúst H. Bjarnason er minn helsti guru í vísindalegum efnum meðal moggabloggara. Hann hefur samt ekkert skrifað um þetta efni nýlega svo mér sé kunnugt. Heimsendaspádómar af þessu tilefni eru að mínu viti með öllu óraunhæfir. Skil ekki með nokkru móti hvernig skynsamir menn geta fengið sig til að trúa slíku.


Bloggfærslur 24. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband