939 - Blogglestur

Minn aðallestur er blogg. Kíki auðvitað í bækur líka (aðallega uppi í rúmi áður en ég fer að sofa) en dagblöð og tímarit les ég yfirleitt ekki. Finnst hart að þurfa að borga fyrir lesefni. Fréttablaðið kemur aldrei hingað og eiginlega er ég feginn. Stunda bókasöfnin grimmt enda hefðum við hjónin ekki mikið að lesa ef svo væri ekki. Bloggin endast þó oft vel en eru sum svo illa skrifuð að ekki er annað hægt en gefast upp á þeim.

Þegar ég les fræðandi og vel skrifuð blogg hellist oft yfir mig tilfinningin um að ég hafi í rauninni ekkert að segja. Ég sé ekki nógu fróður til að skrifa fræðandi blogg, ekki nógu innviklaður í stjórnmál til að skrifa af þekkingu um þau og ekki nógu gáfaður til að vera merkilegur. Svo rjátlast þetta af mér og ég fer að skrifa eitthvað.

Kannski hef ég minn eigin stíl. Stundum finnst mér þó að ég skrifi um alltof margt. Hef alls ekki nógu mikið vit á sumu sem ég skrifa um. Alltaf fæ ég samt heimsóknir og komment. Ef ég fengi engin slík mundi ég sennilega skrá mig á Facebook. Það hef ég þó forðast hingað til. Les samt oft það sem aðrir skrifa um fyrirbrigðið þannig að ég hef í raun heilmikinn Fésbókaráhuga.

Skemmtileg lætin í Hannesi og Hreini. Hver grét og hver ekki? Skyldi Hreinn ætla að fara að opna sig?

Þetta er í styttra lagi. Þarf að bæta einhverju við.

Bjarni Harðar frændi minn sagði einhverntíma á sínu bloggi að Atli bróðir sinn væri sá maður sem hann héldi að kæmist næst því að vita allt. Aldrei hefði ég viðurkennt þetta. Held því blákalt fram að mér finnist ég sjálfur standa fremst í þessu.

Svo er ég stöðugt að hugsa um hvernig ég eigi að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur. Þetta er erfitt mál.


Bloggfærslur 22. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband