938 - Valgerður Bjarnadóttir

Las ágæta grein Valgerðar Bjarnadóttur (systur Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og dóttur Bjarna Benediktssonar sem eitt sinn var forsætisráðherra Íslands og beið bana í eldsvoða á Þingvöllum árið 1970) um þöggunina í þjóðfélaginu í netritinu Herðubreið. (Gegnum blogg.gáttina að sjálfsögðu) Auðvitað fjallar hún þar einkum um Davíð Oddsson og kallar grein sína „Af góðum skoðunum og vondum". Sá svo blogg eftir Arnljót Arnarson sem hann kallar: „Frábært blogg Valgerðar". Þar er minnst á athugasemdir við bloggið og sérstaklega eina sem sögð er eftir Hrein Loftsson. 

Við greinina í Herðubreið er engin athugasemd svo ég fór að athuga málið betur. Sama grein er einnig í bloggi Valgerðar á Eyjunni og þar eru athugasemdir og greinin heitir reyndar þar „Góðar skoðanir og vondar". Meðal annars er þar ein athugasemd sem sögð er vera eftir Hrein Loftsson. Þar er lýst gráti Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar vegna svika við Davíð Oddsson (að því er Hreinn segir) og er öll athugasemdin athyglisverð í meira lagi.

Valgerður virðist ekki hafa skráð eyjublogg sitt á blogg.gáttina og ef til vill valdið því að einhverjir hafi ekki séð athugasemdirnar við bloggið. Þannig kann þetta að vera með fleiri og kannski uppgötvaði ég þetta einungis vegna þess að athugasemdin er fréttnæm.

Ekki veit ég hvort Eiður Guðnason tók eftir því en Ingólfur Bjarni sagði í fréttum sjónvarpsins í kvöld að ríki Evrópusambandsins þyrðu ekki öðru en að hjálpa Grikkjum. Efnislega kann hann að hafa rétt fyrir sér en ekki hefði hann fengið hátt á prófi fyrir svona þágufallssýki í mínu ungdæmi. „Þora annað" hefði átt að segja samkvæmt þeim reglum sem þá giltu en auðvitað verður það á endanum rétt sem allir segja.


Bloggfærslur 21. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband