935 - Framtíðarmúsík

Einhverntíma þegar ég verð kominn á elliheimili ætla ég að segja við matráðskonuna þar:

Áður hafði áform glæst,
aldrei þó sem gátu ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
„Hvenær verður étið næst?"

Ég gæti látist hafa gert þessa vísu sjálfur. Svo er þó auðvitað ekki. En góð er hún. Matráðskonan gæti fundið uppá að skammta mér ríflega fyrir vikið. Væru það þá skáldalaun þó vísast færu þau í vitlausan maga.

Það er svo margt sem ég ætla að gera þegar ég verð eldri. Kannski verð ég samt ekki mikið eldri. Svo það er líklega best að fara að drífa í þessu.

Til dæmis gæti ég kennt gamalmennum á tölvur. Þau eru flest logandi hrædd við þær. Verst að ég kann ekkert fyrir mér í kennslumálum. Hefur samt alltaf fundist ég vera mun gáfaðri en aðrir. Unga fólkið heldur það stundum líka um sig. Verði ég umkringdur ellilífeyrisþegum get ég kannski látið ljós mitt skína og komist betur að með mína speki.

Svo gæti ég leitt fullorðna fólkið í réttindabaráttu þess. Höfum við ekki alltaf verið sívinnandi frá blautu barnsbeini og eigum við ekki skilið að fara á hverju ári til Kanaríeyja? Mér finnst það.

Líka gæti ég kennt gamla fólkinu að tefla. Ég er svo ári snjall í því ef andstæðingarnir kunna lítið. Sumum gæti ég jafnvel kennt að setja saman vísu eða blogga svo eitthvað sé nefnt.

Svo eru það stjórnmálin. Ég gæti þóst hafa mikið vit á þeim. Til dæmis eru einu góðu fréttirnar varðandi þau núna að líklega vilja Bretar og Hollendingar alls ekki að lögin sem samþykkt voru á Alþingi verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En hvernig ætla þeir að koma í veg fyrir það? Kannski með því að ná samkomulagi við nefndina sem er hjá þeim núna? Verða þá stjórn og stjórnarandstaða sammála um að draga lögin til baka? Og samþykkir Ólafur það? Lifir þá stjórnin? Er þá Ólafur að ná sínu fram? Verður hann eins vinsæll og hann var áður óvinsæll? Nei, spurningum fer frekar fjölgandi en hitt. Ætli sé ekki bara best að steinþegja.


Bloggfærslur 18. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband