931 - Lýðurinn vill blóð

Þónokkur komment fékk ég við Sólon-grein mína í gær. Hef lengi haft það á tilfinningunni að verið sé að spila með almenningsálitið. Alltaf koma nýjar og nýjar hrunfréttir. Fólk fær varla ráðrúm til að hneykslast. Finnst ekkert skrýtið þó margir haldi að margboðuð þjóðaratkvæðagreiðsla verði aldrei haldin og skýrsla sannleiksnefndarinnar verði aldrei birt. 

Um áramótin 2008 og 2009 og fyrst eftir það var ég í raun aldrei hræddur um að uppúr syði og raunveruleg bylting yrði hér á Íslandi. Tók jafnvel sjálfur þátt í mótmælum án nokkurs ótta. Þrennt var það sem mér finnst eftirá markverðast í sambandi við það sem gerðist.

Greinargerð Eyþórs Árnasonar um það sem gerðist í raun og veru þegar útsending á þættinum „Kryddsíldinni" var stöðvuð. Um þetta má lesa á blogginu hans.

Lýsing Kristjönu Bjarnadóttur frá Stakkhamri á andrúmsloftinu sem ríkti á Austurvelli þegar kveikt var í jólatrénu sem þar var. Þessa lýsingu sá ég ekki fyrr en talsvert löngu eftir atburðina sem þar er lýst. Greinargerð Eyþórs sá ég hins vegar mjög fljótt og hún hjálpaði mér við að gera mér grein fyrir ástandi mála.

Þriðja atriðið og það sem ég held að hafi skipt algerum sköpum varðandi þróun mála var þegar mótmælendur grýttu lögregluþjóna við stjórnarráðshúsið og nokkrir mótmælendanna stilltu sér upp milli grjótkastaranna og lögreglunnar.

Úr því ekki varð blóðug stjórnarbylting fyrir ári held ég að hún verði ekki. Þó er það svo að valdastofnanir þjóðfélagsins njóta afar lítils trausts. Án þess að einhverju sé hægt að treysta er lítil von til þess að hægt verði að ná þjóðinni uppúr þeim öldudal sem bankahrunið hefur óneitanlega valdið. Ef útrásarvíkingarnir eiga aftur að fá öll völd og geta haldið áfram sínum leik er engin von til þess að vel fari.

Fyrir nokkru vorum við hjónin stödd á bensínstöð einni við Ártúnsbrekkuna. Einhverra hluta vegna datt okkur í hug að fá okkur pínulítið nammi. Afgreiðslukonan var greinilega hálfhneyksluð á okkur og lét þess getið að á laugardögum væri nammið selt á hálfvirði. Mig langaði auðvitað mest til að skila namminu aftur en af því varð ekki.

Nú sé ég í fréttum sjónvarpsins að sama aðferð er notuð í Hagkaupum í Skeifunni og trúlega víðar.

Þeir kaupmenn sem hafa vörur sínar tvöfalt dýrari en þörf er á sex daga vikunnar eiga alls ekki skilið að verslað sé við þá. Fyrirlitningin sem þeir sýna viðskiptavinum sínum með þessu er meiri en hægt er að sætta sig við.


Bloggfærslur 14. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband