928 - Á hvaða takka á ég að ýta til að bora?

Þegar við komum heim frá Kanarí var maður í sætaröðinni fyrir aftan okkur í flugvélinni með fartölvu með sér. Hann náði í hana í handfarangurinn eftir að vélin var komin á loft og skömmu seinna heyrði ég sagt: „Á hvaða takka á ég að ýta til að bora?" Það var dóttir hans að spyrja hann úti einhvern tölvuleik býst ég við. Honum vafðist eitthvað tunga um tönn við að svara þessu svo spurningin var endurtekin nokkrum sinnum. Þess vegna man ég svona vel eftir henni. Sjálfur var ég með fartölvu í handfarangrinum mínum en nennti ekki að Indriðast neitt með henni á heimleiðinni.

Lengi vel eftir að sólin settist hélt ég svo að ljósið á vængendanum væri tunglið. Skildi ekkert í því hvað það var að flækjast þarna og hve það breytti lítið stöðu sinni. Var sífellt rétt ofan við sjóndeildarhringinn og haggaðist ekki þaðan.

„Auðlærð er ill danska," segir máltækið. Mér finnst þessi samsetningur hjá mér samt vera sæmilega vel heppnuð prentsmiðjudanska.

Du skal ikke bruge paafænge under disse rundtomstæder sagde manden da jeg sagde ham fra mine vandringer om den engelske kystens krogotte gader i min sögen for det billigeste röde-paafænge i supermarkederne.

Þetta er semsagt prentsmiðjudanska eins og ég sé hana fyrir mér. Aðrir sjá hana kannski allt öðruvísi. En af hverju heitir þetta prentsmiðjudanska? Þessu mega lesendur gjarnan svara ef þeir geta. Verðlaun eru engin.

Mín vegna má einhver segja þeim það Spaugstofumönnum að tilbúin out-takes eru ekki fyndin. Skil ekki hvers vegna þeir halda það.

Silju Báru málið vekur nokkra athygli núna. Mér finnst að háskólakennari og algengur álitsgjafi í ríkisfjölmiðlunum varðandi stjórnmál megi ekki haga sér svona. Mál þetta getur vel orðið vinstri grænum til mikilla trafala í komandi borgarstjórnarkosningum og ferli Silju Báru sem áhrifamikils álitsgjafa er örugglega lokið.

Leit á bloggið hennar á eyjunni og þar vakti það athygli mína að dagsetning með pistlunum er engin. Furðulegt.


Bloggfærslur 11. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband