8.12.2010 | 00:09
1224 - Valdið og WikiLeaks
Hægt gengur valdinu að losna við WikiLeaks. Þeim fjölgar þó stórfyrirtækjunum sem slást í þann hóp sem ólmur vill fylgja Bandaríkjastjórn í hvaða vitleysu sem er og vissulega er það skiljanlegt.
Það besta sem skeð getur frá sjónarmiði valdsins er að hægt og hægt hverfi WikiLeaks úr umræðunni. Kannski er þeim að takast það. Hef þó ekki orðið var við að fjölmiðlar séu hættir að birta glefsur úr sendiráðspóstum.
Ef upplýsingar sem frá WikiLeaks koma gagnast skipulagðri hermdarverkastarfsemi og óvinum Bandaríkjanna eru leyniþjónustur þeirra ríkja ansi lélegar.
Umfram allt vilja utanríkisþjónustur og ríkisstjórnir vestrænna ríkja stimpla allt leynilegt sem hugsanlegt er að komi starfsfólki þar illa að allir viti. Aðgerðir WikiLeaks breyta vonandi þeim hugsunarhætti. Inni í því sem stimplað er leynilegt leynast síðan að sjálfsögðu upplýsingar sem lúta að þjóðaröryggi.
Á endanum snýst spurningin semsagt um það hverjum er best treystandi til að skera úr um hvað þarf raunverulega að vera leynilegt. Utanríkisþjónusturnar hafa staðið sig illa í því hlutverki og nú standa menn frammi fyrir því að WikiLeaks komi í staðinn.
Þegar ég var í skóla fyrir meira en hálfri öld gekk mér ágætlega í landafræði. Þá voru heldur ekki öll þessi olíuauðugu smáríki á Arabíuskaganum eða á eyjum í Persaflóanum. Bangladesh var ekki einu sinni til heldur bara Austur og Vestur Pakistan.
Öll þessi olíuríki komu mér í hug þegar samþykkt var af FIFA að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 í Qatar.
Satt að segja renna öll þessi heiti sem þarna eru meira og minna saman í huga mér. Geri ráð fyrir að svo sé um fleiri. Fór því á Wikipedíu að kynna mér málið. Ekki gekk það nógu vel en þannig lítur þetta út í stórum dráttum í mínum huga:
UAE eru Sameinuðu Arabisku Furstadæmin (United Arab Emirates) Stærsta eða næststærsta héraðið þar er Dubai. Héruðin eru alls sjö og meðal þeirra er t.d Abu Dhabi.
Önnur ríki á þessu svæði eru: Qatar og Bahrain. Kuwait er á svipuðum slóðum (nokkru norðar þó) að ég held en talsvert eldra. Heyrði á það minnst þegar ég var í skóla. Aftur á móti held ég að olíuauðuga smáríkið Brunei sé í Indónesíu (Borneo). Ég er slæmur með að flytja það á Arabíuskagan útaf olíunni.
Al-Thani sá sem kom við sögu í Kaupþingsmálinu er af furstaættinni sem ræður í Qatar.
Ástæðan fyrir því að ég er að þessu landafræðirugli er sú að mér finnst dálítið útúr kú að ætla sér að halda HM í knattspyrnu í Qatar. Það kemur til með að kosta ansi mikið að byggja alla vellina sem þarf og jafnvel að yfirbyggja þá og loftkæla.
Peningarnir í þetta koma eins og vant er frá almenningi m.a. í formi hærra bensínverðs en vera þyrfti.
Líklega er ég hinn dæmigerði millistéttarmaður. Mest kannski vegna þess að ég er einn þeirra sem ekki viðurkenni neina stéttarskiptingu hér á Íslandi. Ég hef aldrei setið í fangelsi, aldrei orðið gjaldþrota, bara tekið hóflegan þátt í svartri atvinnustarfsemi, lítið svikið undan skatti, aldrei verið ritstjóri Morgunblaðsins, var fermdur á sínum tíma og aldrei affermdur og þannig mætti lengi telja.
Hvað skilur maður þá eftir sig þegar jarðvistinni lýkur? Eiginlega ekkert. Er ekki bara best að trúa því að maður verði draugur, engill eða ekki neitt á næsta tilverustigi? Skiptir það nokkru máli?
Bónuspokar er orðnir hvítir og Krónupokar gulir. Hvar endar þetta? Einu sinni gat maður treyst því að skærgulir pokar væru Bónuspokar og svartir pokar frá ÁTVR. Ekki lengur. Nú er jafnvel svo komið að fólk kemur með innkaupapoka með sér í Bónus. Svona er Kreppan mögnuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)