1247 - Þingrof o.fl.

Í stjórnmálaumræðu er gjarnan reynt að auka viðsjár milli landsbyggðar og þéttbýlis. Einkum er það reynt með því að snúa tölum á haus og leggja saman fjárveitingar á ýmsan hátt til að fá þá útkomu sem óskað er. Þetta er illa gert og þarflaust með öllu. Allir sjá að við eigum að starfa saman og hagur fólks fer ekki aðallega eftir því hvar það býr. Nær er að leita annars staðar að ýmiss konar misrétti og spillingu.

Í kommentakerfinu hjá mér var í gær svolítið rætt um þingrofsheimildir og þess háttar.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ef ríkisstjórnin (í umboði alþingis) ræður ekki hvenær þing er rofið heldur forsetinn þá búum við ekki við þingræði lengur heldur forsetaræði. Að því leyti sem lýðræði kemur þarna við sögu þá er það greinilega ríkisstjórnarmegin því þingrof kallar á alþingiskosningar fljótlega.

Er samt óneitanlega farinn að velta því fyrir mér hvort ÓRG stjórnist eingöngu af vinsældum og hvort hann ætli virkilega að fara í forsetaframboð einu sinni enn. Ýmislegt stangast á í núverandi stjórnarskrá og hlutverk þess stjórnlagaþings sem saman kemur í febrúar er m.a. að ráða bót á því.

„Drífðu þig nú til Nikkolæ og fáðu þér naglalökk". Sennilega hlusta ég meira á Útvarp Sögu en góðu hófi gegnir. Sú hugmynd hefur hvarflað að mér að svo lengi geti aulýsingar hljómað í eyrum fólks að þær fari að hafa öfug áhrif. Eða engin.

Skorað var á mig í gær að skrifa eitthvað um höfundarréttarmál. Það er guðvelkomið en ég er bara með þeim ósköpum gerður að ég er á móti öllum höfundarrétti. Auðvitað skil ég ósköp vel að hann er grundvöllur allrar listsköpunar í því kerfi sem ríkir á Vesturlöndum. Það er samt ekkert sjálfsagt við hann í eðli sínu.

Það má skrifa margar bækur um höfundarréttarmál og færa ýmis rök bæði með honum og á móti en ekkert held ég að fái sannfært mig um að hann sé annað en tæki til að færa til peninga. Eign er þjófnaður segja kommúnistar og óefnisleg eign er það enn frekar.

IMG 3988Háskólinn í Reykjavík.


Bloggfærslur 31. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband