1240 - Jólin nálgast

Nú eru jólin að ganga í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa
þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Eiginlega er ástæðulaust að vera að skrifa nokkuð. Alla vega að hugleiða misskemmtilegar stjórnmálafréttir. Nær að einbeita sér að því að komast í jólaskap.

Það má jafnvel láta hefðbundin jólarifrildisefni eins og skötuna liggja á milli hluta. Þeir sem vilja skötu éta bara skötu.

Kom jólagjafastandi, jólakortum, skreytingum og þess háttar öllu á konuna mína fyrir mörgum árum svo eftir að verslunarstjórastörfum mínum lauk eru jólin eiginlega hvíldartími eins og þau eiga að vera. Jólastressið kvelur samt suma - jafnvel jólakvíði, svo ánægjan er örlítið galli blandin.

Einhver var að tala um gul jól. Þau vil ég ekki sjá. Annað hvort eiga þau að vera hvít eða rauð. Hvít jól eða póstkortajól eru mörgum hugleikin en nýfallinn snjór breytist fyrr eða síðar í bleytu og slabb. Nú eða þá stórhættulega ísingu.

Hvaða gagn er að fésbók, bloggi og öðru þessháttar? Jú, það er í sjálfu sér ágætis þerapía að koma því frá sér sem hugsað er. Kannski eru sumir að hugsa eitthvað svipað eða vilja af öðrum ástæðum taka undir það sem sagt er. Svonalagað sakar a.m.k. ekki nema ef fólk er farið að eyða óhóflegum tíma í það.

Persónulegar árásir koma kannski fyrir augu fleiri fyrir tilverknað þessara fyrirbrigða en alls ekki er víst að slíkar árásir séu eitthvað algengari eftir tilkomu netsins.

Ég ætlaði ekki að blogga neitt svo þetta er þegar orðið alltof langt.

IMG 3667Háskólinn í Reykjavík.


Bloggfærslur 24. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband