1234 - Blogg og aftur blogg

Þessi færsla verður bara um blogg. Blogg í öllum regnbogans litum. Er blogg fjölmiðlun? Er ég þá hluti af fjórða valdinu svokallaða? Bara af því ég hef gaman af að blogga? Held ekki. Þó meira en hundrað gestir líti yfirleitt hingað inn daglega samkvæmt Moggabloggsteljaranum (sem gæti verið lyginn) er ofrausn að kalla þetta fjölmiðlun. Fjölmiðill hlýtur að vera miðill sem mikill fjöldi skoðar reglulega. 

Sumir skoða sinn fjölmiðil nokkuð vel og aðrir verr eins og gengur. En hve marga þarf til að mynda „mikinn fjölda"? Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Menn hafa afar mismunandi hugmyndir um slíkt. Fréttatengdu bloggin sem oftast eru stutt og hengd í vinsælar fréttir mörgum sinnum á dag hafa heilmikið forskot hvað þetta snertir og gætu sum líklega kallast fjölmiðlar.

Þetta segi ég ekki af því að mér þyki vinsældaberin súr. Mín skrif eru vinsælli en ég get með sanngirni ætlast til. Auðvitað er það rétt að lítið spennandi væri að blogga með látum eins og ég geri ef lesendur væru alveg örfáir. En hvað eru „örfáir"? Þarna stendur hnífurinn aftur í kúnni.

Var að taka eftir því að númerið á þessu bloggi er áhugavert. En ég hef ekkert hugsað mér að hætta þessari númerasérvisku. Á því má þekkja mín blogg. Stundum skrifa ég mikið, stundum lítið, og öðru hvoru jafnvel ekki neitt. Stundum um margt, stundum fátt. Stundum er ég blár, stundum rauður og allt þar á milli. Pólitík hata ég en get samt ekki látið vera að minnast á hana.

Bloggið sem slíkt er mitt áhugamál. Fésbókin finnst mér ruglandi og ómerkileg. Er vinstri sinnaður og fylgjandi aðild að ESB. Skrifa fremur sjaldan um sjálfan mig nema þá helst í endurminningum. Þar er ég að mestu þurrausinn í bili og óttast auk þess að endurtaka mig um of ef ég fer að skrifa um svoleiðis lagað.

IMG 3867Í gegnum glerið - málverkasýning.


Bloggfærslur 18. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband