1195 - Inngangur að öðru meira

A: Þetta er náttúrulega bilun.

B: Já, auðvitað er þetta bilun. (Löng þögn). Hvað er það annars sem er bilun?

A: Að vera að blogga svona á hverjum einasta degi.

B: Já, það já. Já, það er alveg satt. Ekki er ég svona.

A: Nei, auðvitað ekki. Það eru fáir sem láta svona. En auðvitað er þetta bilun.

B: Já, það má segja það.

A: Ég var einmitt að segja það. (Þögn). Á ég kannski að segja það aftur.

B: Ha? Segja hvað?

A: Að það sé bilun að vera að blogga svona.

B: Já, einmitt já.

A: Og svo halda allir að maður hugsi ekki um annað en blogg.

B: Það er heilmikið að gera á fésbókinni líka.

A: Tala nú ekki um það.

Og áfram og áfram og áfram.

Þegar ég les gömul blogg eftir sjálfan mig finnst mér oft eins og ég sé hálfskoðanalaus. Þó fer ég stundum markvisst yfir bloggin mín og útrými öllum fyrirvörum og hikorðum. Verð að vona að öðrum finnist þetta ekki. Það versta sem ég veit eru þeir sem aldrei geta ákveðið sig. Ég er samt dálítið þannig sjálfur. Reyni alltaf að fresta ákvörðunum ef þess er nokkur kostur. Það er auðvelt að vera ákveðinn í orðum. Verra getur það verið þegar til alvörunnar kemur.

Mikið frelsi er að lesa svona fá blogg eins og ég geri yfirleitt núorðið. Þetta hefði ég ekki átt að segja. Einhverjir gætu tekið þetta bókstaflega og hætt að lesa bloggin mín. Sem væri skaði því þau eru svo vel skrifuð og skemmtileg. (Segja sumir) . Hugsa að ég myndi kjósa einhvern líkan Múmínálfinum sem er í stól borgarstjórans í Reykjavík um þessar mundir ef mér byðist það. Ekki er útilokað að Gnarrlegt framboð komi fram við næstu alþingiskosningar.

Já, það er ekki meiri vandi en þetta að blogga daglega. Tekur 10 mínútur eða svo. Svo eru það bréfskákirnar. Þær gengur mér ágætlega með eftir að ég hætti að stritast við að halda stigunum. Og síðan út að ganga. Það er víst farið að birta á Austurlandi (segir Fési sjálfur) svo mér er ekki til setunnar boðið.

Ekki erfi ég það við þá Sigurð Þór og Pál Bergþórsson þó þeir kalli fésbókina fasbók. Svona er ég liberal.

Sólin grúfði sig niður bak við Kópavogsturninn þegar þyrlan kom blaðskellandi og rauf morgunkyrrðina. Þetta skeði í Fífuhvamminum klukkan að ganga tíu í morgun og það er meira að segja til mynd af þessu.

Í sívaxandi mæli er ég farinn að heyra aðra minnast á bloggin mín. Af hverju veit ég ekki. Ætli Davíð sé ekki að fikta við teljarann og skrúfa hann niður. Ég ætti náttúrulega að hafa mun fleiri lesendur. Þetta er stóreinkennilegt.

IMG 3669Jónas feiti ítr-ekaður.


Bloggfærslur 9. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband