1194 - Þjóðfundur

Hlustaði á fréttafrásagnir af þjóðfundinum svonefnda. Hugnast ekki aukin völd forseta og að setja á stofn embætti varaforseta (a la Cheney, eða hvað?). Nóg finnst mér hafa verið apað eftir Bandaríkjamönnum undanfarið þó við förum ekki að stefna að því líka að hafa stjórnarfarið eins. Að öllu öðru leyti sýnist mér þjóðfundurinn hafa tekist mjög bærilega. 

Neitunarvaldið (sem í raun ætti að vera hjá þjóðinni en ekki forsetanum) er svo allt annað mál. Þjóðaratkvæðagreiðslur og reglur um þær geta tæpast að öllu leyti komið í staðinn. Þó er það möguleiki. 

Læt mér detta í hug að þeir sem ótengdir eru mér fjölskylduböndum og lesa samt bloggið mitt reglulega (já, ég held að þeir séu til) séu þeirrar skoðunar að ég sé með betri bloggurum í mínum aldursflokki. Auðvitað er ég ekki nógu fréttatengdur né hrunfróður til að slá í gegn en við það verður að una. Betur get ég ekki gert.

Fór að sjá Enron-sýninguna í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Boðskapur verksins kom mér svosem ekki á óvart. Snareðlurnar komu mér hinsvegar þægilega á óvart. Gervi þeirra heppnaðist á allan hátt mjög vel. Hjalti Rögnvaldsson impóneraði mig líka. Hvílík rödd, og hvílíkt vald sem hann hefur á henni. Hann lætur hana smjúga um allt í stærðarsal án þess að séð verði að hann hafi nokkuð fyrir því.

Einhverntíma heyrði ég að líklega væri Kínamúrinn eina mannvirkið á jörðinni sem sjáanlegt væri frá öðrum hnöttum. Gæti vel hugsað mér að skreppa og gá að því. Kannski væri samt framkvæmanlegra að berja hann bara augum svona prívat og persónulega. Öthugum það.

Skil eiginlega ekkert í Eiði Smára Guðjohnsen að hafa farið til Stoke. Vel kunn er andúð knattspyrnustjórans þar á öllu sem íslenskt er. Ef Eiður vill bara hirða kaupið sitt án þess að hafa mikið fyrir því, þá er þetta sennilega rétt ákvörðun en annars ekki. Kannski er hann kominn á þann aldur að metnaður hans er farinn að dala.

Ugla sat á kvisti.
Átti börn og missti.
Ól hún eitt.
Ól hún tvö.
Ól hún þrjú og það varst þú.

Þessi klausa var mest notuð í mínu ungdæmi til að velja krakka úr hópi. Oft var það til að komast að því hver ætti að ver‘ann í næsta leik. Þá var þessi samsetningur gjarnan notaður aftur og aftur þangað til einn var eftir og hann fékk að ver‘ann.

IMG 3616Í Svartaskógi.


Bloggfærslur 8. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband